Sport

Anníe Mist hrundi niður um 21 sæti á nýjum heimslista CrossFit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir varð í þrettánda sæti á heimsleikunum en hrynur samt niður heimslistann.
Anníe Mist Þórisdóttir varð í þrettánda sæti á heimsleikunum en hrynur samt niður heimslistann. Instagram/@anniethorisdottir

Katrín Tanja Davíðsdóttir hækkar sig mest af íslenska CrossFit fólkinu á nýjum heimslista CrossFit sambandsins en listinn var uppfærður eftir heimsleikana um síðustu helgi.

Heimslisti er á sínu fyrsta ári í CrossFit heiminum en hann hugsaður á svipaðan hátt og þeir í tennis og golfi.

Árangur CrossFit fólksins á síðustu tveimur árum, í öllum liðum keppninnar, ræður stöðu þeirra á listanum.

Katrín Tanja varð sjöunda á heimsleikunum og kemst inn á topp tíu á heimslistanum. Hún fer upp um tvö sæti og upp í níunda sæti.

Björgvin Karl Guðmundsson fer niður um fjögur sæti á karlalistanum og situr nú í ellefta sæti langefstur á íslenskum CrossFit körlum.

Þuríður Erla Helgadóttir er næstefsta íslenska stelpan þrátt fyrir að detta niður um níu sæti. Hún er í 26. sæti á nýjum lista.

Sólveig Sigurðardóttir fer niður um þrjá sæti og niður í 35. sæti og Sara Sigmundsdóttir fellur um tvö sæti og situr nú í 41. sætinu.

Anníe Mist Þórisdóttir náð þrettánda sæti á heimsleikunum en það kom þó ekki í veg fyrir algjört hrun á listanum. Hún er nú fimmta efsta íslenska konan á heimslistanum.

Anníe datt niður um 21 sæti á listanum og alla leið niður í 48. sæti listans. Hér munar auðvitað um það að hún keppti í liðakeppninni í fyrra en 1500 stig hennar frá heimsleikunum koma henni samt ekki ofar.

Efstu hundrað sætin hjá körlunum má sjá hér.

Efstu hundrað sætin hjá konunum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×