Frá þessu segir á vef Lyfjastofnunar en skortur hefur verið á tveimur styrkleikum lyfsins frá í lok júlí, 30 mg og 50 mg. Elvanse Adult 70 mg er hins vegar enn fáanlegt.
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD-samtakanna, sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að allt færi úr skorðum hjá þeim einstaklingum sem séu með ADHD þar sem þeir fengju ekki lyfin sín. Lyfið væri jafn ófáanlegt á svörtum markaði og í apótekum.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði sömuleiðis að gífurleg aukning hafi orðið í notkun lyfsins auk þess sem erfitt hafi reynst að birgðastýra því.
Væntanleg á næstu vikum
Á vef Lyfjastofnunar segir að síðan tilkynning um skortinn barst hafi Lyfjastofnun ásamt lyfjaheildsölum unnið að því að fá birgðir til landsins. Bæði skráð lyf og undanþágulyf séu væntanleg á næstu vikum í einhverjum mæli.
- Elvanse Adult 30 mg – væntanlegt í byrjun október. Takmarkað magn undanþágulyfs væntanlegt í september.
- Elvanse Adult 50 mg – væntanlegt í byrjun september. Takmarkað magn undanþágulyfs einnig væntanlegt í september.
„Samheitalyfið Volidax var markaðssett í ágúst en birgðir kláruðust fljótt og nýjar birgðir ekki væntanlegar aftur fyrr en í lok október.
Lyfjastofnun hvetur þá sem lenda í vanda vegna skortsins að leita til læknis til að fá ráðgjöf varðandi úrræði meðan lyfjasendinganna er beðið,“ segir í tilkynningunni.