Körfubolti

Bandaríkjamenn ekki lengi að sleikja sárin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikal Bridges var stigahæstur á vellinum þegar Bandaríkin lögðu Ítalíu að velli á HM karla í körfubolta.
Mikal Bridges var stigahæstur á vellinum þegar Bandaríkin lögðu Ítalíu að velli á HM karla í körfubolta. getty/Ezra Acayan

Bandaríska karlalandsliðið í körfubolta er komið í undanúrslit á HM eftir stórsigur á Ítalíu í dag, 63-100. Serbar eru einnig komnir í undanúrslit.

Bandaríkjamenn töpuðu fyrir Litáum, 104-110, í seinni leik sínum í milliriðli á HM í fyrradag. Tapið hafði ekki mikil áhrif á bandaríska liðið sem gaf því ítalska engin grið í dag.

Bandaríkin voru tíu stigum yfir eftir 1. leikhluta, 14-24, og í hálfleik munaði 22 stigum á liðunum, 24-46. Bandaríska liðið steig svo heldur betur á bensíngjöfina í 3. leikhluta sem það vann, 20-37.

Mikal Bridges skoraði 24 stig fyrir Bandaríkin og tók sjö fráköst. Tyrese Haliburton kom næstur með átján stig. Ellefu af tólf leikmönnum bandaríska liðsins komust á blað í dag. Simone Fontecchio skoraði átján stig fyrir Ítalíu.

Í undanúrslitunum á föstudaginn mæta Bandaríkin annað hvort Þýskalandi eða Lettlandi. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætir Serbía Kanada eða Slóveníu.

Serbar unnu Litáa, 68-87, í fyrri leik dagsins í átta liða úrslitum HM. Bogdan Bogdanovic skoraði 21 stig fyrir serbneska liðið og Filip Petrusev sautján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×