Ölgerðin tilkynnti um það í hádeginu í dag að hún skoði að sækja skaðabætur vegna samráðs skipafélaganna Samskipa og Eimskips, sem Samkeppniseftirlitið sektaði Samskip um 4,2 milljarða í síðustu viku. Fleiri félög til að mynda IKEA, sem segir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins að hafi liðið fyrir samráðið, hafa það nú til skoðunar hvort þau fylgi Ölgerðinni eftir.
„Það er til skoðunar hjá okkur líka. Þetta er á borði lögmanna okkar og gríðarleg vinna hér innandyra hafin til að átta okkur á umfanginu og réttarstöðu okkar. Við munum horfa til þess,“ segir Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness.
Hljóti að vera óhreint mjöl í pokahorninu
Hann segir fréttir af samráðinu hafa komið verulega á óvart.
„Þetta er reiðarslag, mikið áfall og gríðarumfangsmikil rannsókn verið gerð,“ segir Magnús.
„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér eða órað fyrir að þetta væri að gerast hér á landi. Að stjórnendur fyrirtækja, ef rétt reynist, komi fram með þessum hætti. Fyrir okkar starfsfólk er þetta gríðarlegt áfall.“
Innnes hafi á sínum 36 árum í rekstri átt í miklum viðskiptum við félögin tvö. Eimskip samdi við Samkeppniseftirlitið og ráða má af skýrslunni að Samskip hafi reynt að gera slíkt hið sama.
„Ef maður er að semja við Samkeppniseftirlitið hlýtur að vera eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu.“
Samskip hefur tilkynnt að þau muni áfrýja
Sektarupphæðin sendi skýr skilaboð.
„Það er ljóst að eftirlitið er að leggja áherslu á það að stjórnendur axli ábyrgð og átti sig á stöðunni og hvaða gjörninga er verið að fremja,“ segir Magnús.
Fram kemur í skriflegu svari frá viðskiptaráðuneytinu, við fyrirspurn fréttastofu, að Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hafi farið með minnisblað um málið fyrir ríkisstjórnina. Þá hafi Samskip tilkynnt að málinu verði áfrýjað.
Rúin trausti
Magnús segir félögin tvö rúin trausti.
„Við lítum alltaf á okkar viðskiptavini sem vini líka. Þetta eru ekki bara viðskipti. Við lítum svo á að það hefur greinilega ekki verið nein áhersla á vinskapinn. Þetta eru bara viðskipti. Þetta er ljótt brot og sennilega það stærsta í viðskiptasögu Íslands,“ segir Magnús.
„Viðskipti eru ekkert annað en mannleg samskipti. Það tekur langan tíma að byggja upp traust og trúnað en það tekur stutta stund að skemma það. Í raun og veru held ég að margir sem eru í viðskiptalífinu í dag séu það slegnir að þeir treysti hvorki einu né neinu.“
Ábyrgð Samskipa og Eimskips sé rík.
„Skipafélögin eru nú ekki mörg á þessum markaði og þessi tvö skipa lykilhlutverk í flutningum til og frá landi. Við erum eyja norður í Atlantshafi. Þau bera mikla ábyrgð og við eigum okkar veru hér mikið undir þeim komið. Viðskiptasiðferði þeirra skiptir okkur gríðarlega miklu máli og ábyrgð þeirra mikil.“