Opinberir fjölmiðlar í Kína ásökuðu Bandaríkjamenn um helgina um að „hnykkla vöðvana í dyragætt Kína“ og vöruðu við því að þolinmæði Kínverja væru takmörk sett. Þá væru Bandaríkjamenn að storka örlögunum með því að sigla um hafsvæði Kína, þar sem það yki líkurnar á beinum átökum.
Xi Jinping, leiðtogi Kína, heimsótti kínverska herstöð á dögunum og sagði mikilvægt að efla hernaðarviðbúnað Kína.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði hins vegar í opinberri heimsókn til Víetnam um helgina að aðgerðir Bandaríkjamanna í utanríkismálum miðuðu ekki að því að einangra Kína heldur að stuðla að stöðugleika.
Sagði hann menn fasta í kaldastríðshugsun; hann vildi sjá Kínverjum ganga vel efnahagslega séð en á sama tíma þyrftu þeir að fara að sömu reglum og aðrir.
Samkvæmt erlendum miðlum hafa aukin tengsl Bandaríkjanna og Víetnam hins vegar farið fyrir brjóstið á stjórnvöldum í Kína, sem hafa löngum verið mikilvægasti bandamaður Víetnam.