Hermaðurinn hét John Chadwick og sinnti herþjónustu fyrir breska herinn árin 2011 til 2015. Hann ákvað að ganga til liðs við her Úkraínumanna í október í fyrra. Guardian greinir frá því að hann hafi fundist látinn í vatnsbóli í landinu.
Móðir hermannsins, Brenda Chadwick, segir við Breska ríkisútvarpið að hann hafi verið ötull baráttumaður frelsis og hafi því ákveðið að ganga til liðs við Úkraínuher. Hún segir sorgina óbærilega.
„Við erum stolt af hugrekkinu sem hann sýndi en sorgin er ólýsanleg. Hann lifði allt of stutt. Sonur, bróðir, barnabarn og frændi.“
Chadwick er ekki fyrsti Bretinn sem lætur lífið innrás Rússa í Úkraínu en talið er að yfir tugur hafi látist. Nokkur fjöldi fyrrverandi hermanna í Bretlandi, og víðar að, hafa gengið til liðs við Úkraínuher síðan innrás Rússa hófst í febrúar í fyrra.