Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Keflavík 80-83 | Keflvíkingar unnu nágrannaslaginn Siggeir Ævarsson skrifar 27. september 2023 22:50 Birna Valgerður Benónýsdóttir og stöllur hennar í Keflavík byrja tímabilið vel. Vísir/Hulda Margrét Njarðvík þurfti að lúta í lægra haldi gegn Keflavík í lokaleik fyrstu umferðar Subway-deildar kvenna í körfubolta en bæði Reykjanesbæjarliðin ætla sér stóra hluti í vetur. Svo til allir spekingar og spámenn landsins hafa spáð Keflvíkingum Íslandsmeistaratitlinum en þær mæta til leiks með gríðarsterkan hóp, jafnvel sterkari en í fyrra þegar liðið hafði mikla yfirburði í deildarkeppninni og fór alla leið í úrslit. Njarðvíkingar aftur á móti mæta til leiks með mikið breyttan hóp og fjóra nýja erlenda leikmenn en hin bandaríska Tynice Martin er ekki komin með leikheimild og var því ekki með í kvöld. Var það klárlega skarð fyrir skildi, ekki síst þar sem Andela Strize skoraði aðeins fjögur stig en hún leit varla á körfuna í kvöld, tók aðeins þrjú skot utan af velli. Leikurinn fór hægt af stað, bæði lið að hitta illa og mikil barátta einkenndi fyrstu mínúturnar. Daniela Wallen lenti snemma í villuvandræðum en Thelma Dís Ágústsdóttir pikkaði upp slakann og skoraði nánast að vild í byrjun leiks. Keflvíkingar virtust ætla að síga fram úr ítrekað í leiknum. Þær leiddu með ellefu stigum í hálfleik en Njarðvíkingar einfaldlega neituðu að gefast upp og klóruðu sig aftur og aftur inn í leikinn. Hin danska Emilie Hesseldal bar liðið nánast á herðum sér en fékk góða aðstoð frá Keflvíkingnum, sem nú leikur í leikur í Njarðvíkurtreyjunni, Jönu Falsdóttur. Jana fékk tækifæri til að tryggja Njarðvíkingum sigurinn í stöðunni 80-82 þegar tólf sekúndur voru til leiksloka en ofan í vildi boltinn ekki. Keflvíkingar náðu að sigla sigrinum heim og fá montréttinn í Reykjanesbæ í þetta skiptið, en tæpt var það. Af hverju vann Keflavík? Keflavíkurliðið býr yfir gríðarlegri breidd sem reyndist þeim vel í kvöld. Erlendu leikmennirnir tveir skoruðu aðeins 13 stig samanlagt en það kom ekki að sök þar sem aðrir leikmenn stigu rækilega upp í kvöld. Hverjar stóðu upp úr? Emilie Hesseldal var yfirburðakona á vellinum. Hún var aðeins einu frákasti og einum stolnum bolta frá þrefaldri tvennu, 31 stig, níu fráköst (þar af átta sóknarfráköst) og níu stolnir boltar. Þá átti Jana Falsdóttir frábæran leik, 17 stig, sex stoðsendingar og þrír stolnir boltar sem allir skiluðu körfum. Hjá Keflavík var Thelma Dís Ágústsdóttir frábær í byrjun leiks en hún skoraði tíu af fyrstu 15 stigum Keflavíkur. Ef hún væri eigingjarnari leikmaður hefði hún örugglega skorað langt yfir 20 stig, en hún lét 17 duga og var stigahæst Keflvíkinga ásamt Birnu Valgerði Benónýsdóttur sem lét þristunum rigna fyrir utan. Hvað gekk illa? Litlu hlutirnir féllu ekki með Njarðvík í kvöld og nokkur klaufaleg mistök reyndust þeim ansi dýrkeypt í þessum jafna leik. Hvað gerist næst? Mótið er ungt en Keflavík tekur á móti Stjörnunni þriðjudaginn 3. október og Njarðvík á móti Blikum sama kvöld. Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15. Sverrir Þór: „Við gerðum nóg til að ná í sigur“ Sverrir Þór Sverrisson sótti sigur í sínum fyrsta leik með KeflavíkVísir/Bára Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, sagði að það hefði ekki komið honum á óvart hvað hans konur þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum í kvöld. Hans konur hefðu þó gert nóg til að landa sigrinum en eigi töluvert inni. „Bara eins og ég bjóst við. Eins og ég sagði þér fyrir leik þá var ég búinn að sjá þær á undirbúningstímabilinu og þetta er hörkulið. Með góða útlendinga og margar góðar íslenskar sem voru að skila ágætis frammistöðu. Jana Fals frábær hjá þeim. Við vorum í miklum vandræðum með Emilie, hún var frábær.“ „En við gerðum nóg. Mér fannst þetta ekkert einhver geggjuð frammistaða hjá okkur en það er sama. Við gerðum nóg til að ná í sigur og ég er náttúrulega ánægður með það. Við fengum lítið skor frá Danielu þannig að við eigum það inni. Margar aðrar í liðinu voru að stíga vel upp sóknarlega þannig að þetta er bara frábært, að vinna Njarðvík í Njarðvík.“ Daniela Wallen lenti í villuvandræðum strax í upphafi leiks og settist á bekkinn drykklanga stund. Ég spurði Sverri hvort hún hefði ekki bara viljað einfalda fyrir honum róteringuna á liðinu en Sverrir sagði fyrir leik að hans stærsti hausverkur væri sennilega að finna nógu margar mínútur fyrir alla. „Það er ekki gott að segja! Hún og Birna voru náttúrulega báðar í villuvandræðum. En hún einhvern veginn komst ekkert í takt sóknarlega en sem betur fer voru aðrar sem áttu mjög góðan dag og stigu upp þegar hún var kannski á sínu besta.“ Sverrir sagði það sterkt að landa sigri í Njarðvík þrátt fyrir að fá lítið framlag frá hans erlendu leikmönnum. Breidd liðsins hefði sýnt sig í kvöld. „Það er bara mjög gott. Við eigum að vera með mikla breidd og ég held að við höfum sýnt það svolítið vel í þessum leik.“ Talandi um breiddina, það fer ekkert á milli mála að Thelma Dís eykur hana töluvert. „Hún er náttúrulega frábær leikmaður. Teygir á vörnum og er góð að finna eyður í vörninni. Geggjað að hún sé komin heim og komin í Keflavík aftur.“ Sverrir sagðist taka eitt og annað jákvætt út úr þessum leik en það væri þó margt sem væri hægt að laga. „Mér fannst bara sterkt að klára þetta. Þær voru alltaf að nálgast og nálgast. Það er oft í svona leikjum þá eru hinar að reyna að sækja þetta og liðið sem er búið að vera yfir að passa sig að missa þetta ekki. Mér fannst það sterkt, að halda haus hérna. En það mátti ekki miklu muna. Svo fannst mér ágætis barátta á köflum hjá okkur en við þurfum að bæta helling og laga helling enda er tímabilið bara nýbyrjað og við munum halda áfram næstu mánuði að vinna í hinum ýmsu hlutum til að gera okkur að betra liði.“ Thelma Dís: „Keflavíkurhjartað er náttúrulega bara stórt“ Thelma Dís hefur síðustu tímabil leikið í bandaríska háskólaboltanum þar sem hún raðaði niður þristum með Ball State skólanum.Vísir/Getty Thelma Dís Ágústsdóttir lék í kvöld sinn fyrsta leik á Íslandi í fimm ár, en hún hélt í bandaríska háskólaboltann haustið 2018. Þar lék hún með Ball State skólanum og skilaði 13 stigum að meðaltali síðasta árið og skaut 42 prósent fyrir utan. Það er sennilega ekki hægt að biðja um betri fyrsta leik en nágrannaslag við Njarðvík og sigur að auki? „Nei, ég get ekki sagt það! Þetta var skemmtilegur leikur að spila og spennandi. Þetta var mjög gaman og gott að ná sigrinum.“ Thelma sagði að breiddin hefði hjálpað Keflavík mikið í kvöld meðan að erlendu leikmennirnir skiluðu fáum körfum. Það skipti hreinlega engu máli hver skorar og þær reiði sig ekki á einn leikmann frekar en annan. „Við erum náttúrulega bara með fullt af leikmönnum sem geta stigið upp. Það þarf ekkert einhver ein að taka yfir og skora öll stigin okkar. Það skiptir í raun engu máli hver skorar. Við erum náttúrulega með margar sem hafa verið að spila seinustu ár bæði hérna heima eða hafa verið að spila úti. Við erum komnar með reynslu allsstaðar að myndi ég segja. Ég held að það verði spennandi að fylgjast með okkur í vetur.“ Eftir langa fjarveru frá Íslandi er það kannski ekkert endilega sjálfgefið að fara aftur heim í sama lið. Thelma sagði að taugarnar til Keflavíkur væru sterkar þó hún hefði ekki útilokað að prófa eitthvað nýtt. „Ég lokaði ekkert á að skoða önnur lið en það hefði verið erfitt að fara eitthvað annað. Keflavíkurhjartað er náttúrulega bara stórt. Svo eigum við harma að hefna síðan í fyrra. Ég fylgdist aðeins með þessu seinasta vetur og við erum bara spenntar að byrja. Subway-deild kvenna UMF Njarðvík Keflavík ÍF
Njarðvík þurfti að lúta í lægra haldi gegn Keflavík í lokaleik fyrstu umferðar Subway-deildar kvenna í körfubolta en bæði Reykjanesbæjarliðin ætla sér stóra hluti í vetur. Svo til allir spekingar og spámenn landsins hafa spáð Keflvíkingum Íslandsmeistaratitlinum en þær mæta til leiks með gríðarsterkan hóp, jafnvel sterkari en í fyrra þegar liðið hafði mikla yfirburði í deildarkeppninni og fór alla leið í úrslit. Njarðvíkingar aftur á móti mæta til leiks með mikið breyttan hóp og fjóra nýja erlenda leikmenn en hin bandaríska Tynice Martin er ekki komin með leikheimild og var því ekki með í kvöld. Var það klárlega skarð fyrir skildi, ekki síst þar sem Andela Strize skoraði aðeins fjögur stig en hún leit varla á körfuna í kvöld, tók aðeins þrjú skot utan af velli. Leikurinn fór hægt af stað, bæði lið að hitta illa og mikil barátta einkenndi fyrstu mínúturnar. Daniela Wallen lenti snemma í villuvandræðum en Thelma Dís Ágústsdóttir pikkaði upp slakann og skoraði nánast að vild í byrjun leiks. Keflvíkingar virtust ætla að síga fram úr ítrekað í leiknum. Þær leiddu með ellefu stigum í hálfleik en Njarðvíkingar einfaldlega neituðu að gefast upp og klóruðu sig aftur og aftur inn í leikinn. Hin danska Emilie Hesseldal bar liðið nánast á herðum sér en fékk góða aðstoð frá Keflvíkingnum, sem nú leikur í leikur í Njarðvíkurtreyjunni, Jönu Falsdóttur. Jana fékk tækifæri til að tryggja Njarðvíkingum sigurinn í stöðunni 80-82 þegar tólf sekúndur voru til leiksloka en ofan í vildi boltinn ekki. Keflvíkingar náðu að sigla sigrinum heim og fá montréttinn í Reykjanesbæ í þetta skiptið, en tæpt var það. Af hverju vann Keflavík? Keflavíkurliðið býr yfir gríðarlegri breidd sem reyndist þeim vel í kvöld. Erlendu leikmennirnir tveir skoruðu aðeins 13 stig samanlagt en það kom ekki að sök þar sem aðrir leikmenn stigu rækilega upp í kvöld. Hverjar stóðu upp úr? Emilie Hesseldal var yfirburðakona á vellinum. Hún var aðeins einu frákasti og einum stolnum bolta frá þrefaldri tvennu, 31 stig, níu fráköst (þar af átta sóknarfráköst) og níu stolnir boltar. Þá átti Jana Falsdóttir frábæran leik, 17 stig, sex stoðsendingar og þrír stolnir boltar sem allir skiluðu körfum. Hjá Keflavík var Thelma Dís Ágústsdóttir frábær í byrjun leiks en hún skoraði tíu af fyrstu 15 stigum Keflavíkur. Ef hún væri eigingjarnari leikmaður hefði hún örugglega skorað langt yfir 20 stig, en hún lét 17 duga og var stigahæst Keflvíkinga ásamt Birnu Valgerði Benónýsdóttur sem lét þristunum rigna fyrir utan. Hvað gekk illa? Litlu hlutirnir féllu ekki með Njarðvík í kvöld og nokkur klaufaleg mistök reyndust þeim ansi dýrkeypt í þessum jafna leik. Hvað gerist næst? Mótið er ungt en Keflavík tekur á móti Stjörnunni þriðjudaginn 3. október og Njarðvík á móti Blikum sama kvöld. Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15. Sverrir Þór: „Við gerðum nóg til að ná í sigur“ Sverrir Þór Sverrisson sótti sigur í sínum fyrsta leik með KeflavíkVísir/Bára Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, sagði að það hefði ekki komið honum á óvart hvað hans konur þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum í kvöld. Hans konur hefðu þó gert nóg til að landa sigrinum en eigi töluvert inni. „Bara eins og ég bjóst við. Eins og ég sagði þér fyrir leik þá var ég búinn að sjá þær á undirbúningstímabilinu og þetta er hörkulið. Með góða útlendinga og margar góðar íslenskar sem voru að skila ágætis frammistöðu. Jana Fals frábær hjá þeim. Við vorum í miklum vandræðum með Emilie, hún var frábær.“ „En við gerðum nóg. Mér fannst þetta ekkert einhver geggjuð frammistaða hjá okkur en það er sama. Við gerðum nóg til að ná í sigur og ég er náttúrulega ánægður með það. Við fengum lítið skor frá Danielu þannig að við eigum það inni. Margar aðrar í liðinu voru að stíga vel upp sóknarlega þannig að þetta er bara frábært, að vinna Njarðvík í Njarðvík.“ Daniela Wallen lenti í villuvandræðum strax í upphafi leiks og settist á bekkinn drykklanga stund. Ég spurði Sverri hvort hún hefði ekki bara viljað einfalda fyrir honum róteringuna á liðinu en Sverrir sagði fyrir leik að hans stærsti hausverkur væri sennilega að finna nógu margar mínútur fyrir alla. „Það er ekki gott að segja! Hún og Birna voru náttúrulega báðar í villuvandræðum. En hún einhvern veginn komst ekkert í takt sóknarlega en sem betur fer voru aðrar sem áttu mjög góðan dag og stigu upp þegar hún var kannski á sínu besta.“ Sverrir sagði það sterkt að landa sigri í Njarðvík þrátt fyrir að fá lítið framlag frá hans erlendu leikmönnum. Breidd liðsins hefði sýnt sig í kvöld. „Það er bara mjög gott. Við eigum að vera með mikla breidd og ég held að við höfum sýnt það svolítið vel í þessum leik.“ Talandi um breiddina, það fer ekkert á milli mála að Thelma Dís eykur hana töluvert. „Hún er náttúrulega frábær leikmaður. Teygir á vörnum og er góð að finna eyður í vörninni. Geggjað að hún sé komin heim og komin í Keflavík aftur.“ Sverrir sagðist taka eitt og annað jákvætt út úr þessum leik en það væri þó margt sem væri hægt að laga. „Mér fannst bara sterkt að klára þetta. Þær voru alltaf að nálgast og nálgast. Það er oft í svona leikjum þá eru hinar að reyna að sækja þetta og liðið sem er búið að vera yfir að passa sig að missa þetta ekki. Mér fannst það sterkt, að halda haus hérna. En það mátti ekki miklu muna. Svo fannst mér ágætis barátta á köflum hjá okkur en við þurfum að bæta helling og laga helling enda er tímabilið bara nýbyrjað og við munum halda áfram næstu mánuði að vinna í hinum ýmsu hlutum til að gera okkur að betra liði.“ Thelma Dís: „Keflavíkurhjartað er náttúrulega bara stórt“ Thelma Dís hefur síðustu tímabil leikið í bandaríska háskólaboltanum þar sem hún raðaði niður þristum með Ball State skólanum.Vísir/Getty Thelma Dís Ágústsdóttir lék í kvöld sinn fyrsta leik á Íslandi í fimm ár, en hún hélt í bandaríska háskólaboltann haustið 2018. Þar lék hún með Ball State skólanum og skilaði 13 stigum að meðaltali síðasta árið og skaut 42 prósent fyrir utan. Það er sennilega ekki hægt að biðja um betri fyrsta leik en nágrannaslag við Njarðvík og sigur að auki? „Nei, ég get ekki sagt það! Þetta var skemmtilegur leikur að spila og spennandi. Þetta var mjög gaman og gott að ná sigrinum.“ Thelma sagði að breiddin hefði hjálpað Keflavík mikið í kvöld meðan að erlendu leikmennirnir skiluðu fáum körfum. Það skipti hreinlega engu máli hver skorar og þær reiði sig ekki á einn leikmann frekar en annan. „Við erum náttúrulega bara með fullt af leikmönnum sem geta stigið upp. Það þarf ekkert einhver ein að taka yfir og skora öll stigin okkar. Það skiptir í raun engu máli hver skorar. Við erum náttúrulega með margar sem hafa verið að spila seinustu ár bæði hérna heima eða hafa verið að spila úti. Við erum komnar með reynslu allsstaðar að myndi ég segja. Ég held að það verði spennandi að fylgjast með okkur í vetur.“ Eftir langa fjarveru frá Íslandi er það kannski ekkert endilega sjálfgefið að fara aftur heim í sama lið. Thelma sagði að taugarnar til Keflavíkur væru sterkar þó hún hefði ekki útilokað að prófa eitthvað nýtt. „Ég lokaði ekkert á að skoða önnur lið en það hefði verið erfitt að fara eitthvað annað. Keflavíkurhjartað er náttúrulega bara stórt. Svo eigum við harma að hefna síðan í fyrra. Ég fylgdist aðeins með þessu seinasta vetur og við erum bara spenntar að byrja.
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti