Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá haustfundi Landsvirkjunar. Fundarmenn fylltu salinn á Hilton Nordica-hótelinu í Reykjavík til að hlýða á forystumenn fyrirtækisins.
Mörgum var eflaust brugðið að sjá myndina sem samfélags- og umhverfisstjórinn Jóna Bjarnadóttir dró upp af flóknu leyfisveitingarferli virkjana, með aðkomu aragrúa stofnana og umsagnaraðila, ferli sem tæki tólf ár, ef allt gengi vel, eða jafnvel þrjátíu ár, eins og stefnir í með Hvammsvirkjun, í stöðu sem hún lýsti sem grafalvarlegri.

Forstjórinn Hörður Arnarson greip boltann í pallborðsumræðu. Samfélagið þyrfti að sameinast í því að greiða götu þessara verkefna.
„Það hefur verið mjög skaðlegt undanfarin ár að það hafa verið háværar raddir sem hafa verið að rökræða það að það þurfi ekki orku. Aðilar sem ættu að vera ábyrgir hafa haldið því fram að við gætum verið að gera allt sem við vildum án þess að auka orkuvinnsluna.
Þetta er alrangt. Þetta er algjörlega ábyrgðarlaust. Margir stjórnmálamenn stukku á þennan vagn,“ sagði forstjórinn.

„Og ennþá finnst okkur stundum í leyfisveitingaferlinu að það séu opinberir starfsmenn sem eru þessarar skoðunar,“ sagði Hörður. Það væri grafalvarlegt ef samfélagið sameinaðist ekki um að taka á þessu.
„Oft mætti maður halda á umræðunni að það sé verið að virkja persónulega fyrir starfsmenn Landsvirkjunar. Þetta sé eitthvað persónulegt, við séum með eitthvað virkjanablæti. Okkur líði bara illa ef við séum ekki að virkja,“ sagði forstjórinn.
„Það er bara fullt af aðilum sem hafa haldið því blákalt fram, á fundum eins og þessum, að við þurfum ekkert að virkja. Það væri hægt að gera þetta allt. Skipta um ljósaperur! Þá virkar þetta allt!“
Landsmenn þyrftu að átta sig hvað orkuskortur þýddi.
„Hvað gerist ef það er orkuskortur? Við höfum aldrei fundið þetta. En við erum að horfa á þetta núna. Og við höfum miklar áhyggjur,“ sagði forstjóri Landsvirkjunar.