Sport

Sex­tán ára og fylgdi eftir bronsi á heims­leikum með Ís­lands­meistara­gulli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bergrós Björnsdóttir á verðlaunapallinum með þeim Guðbjörgu Valdimarsdóttur (til hægri) og Helenu Pétursdóttur.
Bergrós Björnsdóttir á verðlaunapallinum með þeim Guðbjörgu Valdimarsdóttur (til hægri) og Helenu Pétursdóttur. @bergrosbjornsdottir

Bergrós Björnsdóttir varð um helgina yngsti Íslandsmeistarinn í CrossFit frá upphafi þegar hún tryggði sér sigur á Íslandsmótinu sem haldið var hjá CrossFit Reykjavík.

Bergrós er aðeins sextán ára gömul en er án efa langefnilegasta CrossFit kona Íslands í dag. Hún vann brons í flokki sextán til sautján ára á heimsleikunum í haust og var þá eini Íslendingurinn á verðlaunapalli.

Það voru táningarnir sem voru bestir á mótinu því hinni nítján ára gamli Bjarni Leifs vann opna flokkinn hjá körlunum.

Bjarni hafði betur eftir keppni við reynsluboltann Frederik Ægidius sem varð í öðru sæti en næstir urðu síðan Ægir Björn Gunnsteinsson og Carlos Fernandez. Bjarni vann sex af sjö greinum og endaði í öðru sæti í þeirri sjöundu.

Eini sem náði að vinna hann í grein var Birkir Örn Kristjánsson sem endaði í fimmta sætinu. Sigur Bjarna var því öruggur.

Bergrós hafði ekki alveg eins mikla yfirburði í keppninni en sigur hennar var þó aldrei í mikilli hættu. Bergrós fékk þó verðuga samkeppni frá fráfarandi Íslandsmeistara Guðbjörgu Valdimarsdóttur ekki síst eftir að Bergrós endaði í níunda sætinu í einni grein.

Bergrós vann fjórar af sjö greinum og varð einnig í öðru og þriðja sæti í greinum. Þessi eina slæma grein kom því ekki að sök og hún vann að lokum með fjórum stigum. Fékk átján stig á móti 22 frá Guðbjörgu en þarna er markmiðið að vera með sem lægsta tölu. Talan ræðst að sæti hver og eins í hverri grein.

Helena Pétursdóttir varð þriðja og næstar á eftir henni urðu Andrea Ingibjörg Orradóttir, Birta Líf Þórarinsdóttir og Hjördís Ósk Óskarsdóttir.

Bæði hafa þau Bjarni og Bergrós æft CrossFit í fjögur ár en voru áður í boltagreinum, Bjarni í fótbolta en Bergrós í handbolta.

Bergrós er frá Selfossi en æfir í Reykjavík og leggur því ekki aðeins mikið á sig við æfingar heldur eyðir miklum tíma líka í að ferðast á milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×