„Og efsta gimbrin hér í dag er númer 125 frá Teigi. Hún er með ómvöðva upp á 43, 5,1 í fitu, 4,5 í lögun, hún er með 9,5 fyrir frampart, 19,5 læri, 8,5 ull og 9 í samræmi. Glæsilega vel gert lamb á allan hátt, gjörið svo vel, til hamingju,” sagði Lovísa Herborg Ragnarsdóttir kynnir á Degi sauðkindarinnar þegar hún afhenti Tómasi Jenssyni á Teigi verðlaunin fyrir gimbrina.
„Hún stóð sig vel, vonandi gerir hún það áfram,” segir Tómas.
Það var heldur betur stemming á laugardaginn í reiðhöllinni á Hvolsvelli þar sem dagurinn fór fram. Mikið af fólki mætti til að fylgjast með og allt af fallegasta fénu í Rangárvallasýslu var mætt í höllina. Keppt var meðal annars um best hyrnda hrútinn, bestu kollóttu gimbrina, litfegurstu gimbrina og svo var ræktunarbú ársins 2022 tilkynnt en það er sauðfjárræktarbúið á Teigi í Fljótshlíð og tóku bræðurnir á bænum, þeir Jens Heiðar Guðnason, 9 ára og Ýmis Atli, 5 ára við verðlaununum.

Hyrndur hrútur frá Austvaðsholti vakti sérstaka athygli á deginum.
„Ég ætla að vonast til að geta notað annað hvort hann eða son hans í vetur á forysturollurnar mínar. Hann er fallega hyrndur og hornin eru ekki í kinnunum, hann gæti verið útigangur í mörg ár, það færu aldrei í hann hornin,” segir Vilmundur Rúnar Ólafsson, bóndi á Torfastöðum í Fljótshlíð.

„Bændur eru ekkert að gefa eftir í sauðfjárræktinni, þetta er bara svo gaman eins og allt stússið, smala, raga, gefa, bara vera innan um skepnurnar og borða, fá kjötið á diskinn,” segir Lovísa Herborg, kynnir og sauðfjárbóndi.
Verðlaunagripirnir voru ekki af verri endanum. Myndir sem Gunnhildur Þórunn Jónsdóttir á Hvolsvelli teiknaði og málaði.
„Ég gerist smiður einu sinni á ári, sker út og mála svo. Ég var svona tvær klukkustundir með hverja mynd,” segir Gunnhildur Þórunn.
Katrín J. Óskarsdóttir var með skemmtilega sýningu á myndum sínum en hún er sérstaklega góð í að teikna og mála íslenska húsdýrin og var meðal annars að gefa út fallegt plakat út um íslenska húsdýrin.

Og Sverrir Haraldsson í Selsundi, 96 ára lét sig ekki vanta á Dag sauðkindarinnar.
„Mér líst vel á þetta nýjasta með ræktunina og riðuna í sauðfénu með nýju arfgerðina, það eru einu framfarirnar sem eru yfirstandandi núna,” segir Sverrir.
