Íslenski boltinn

Nik Cham­berlain tekur við kvenna­liði Breiða­bliks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nik Chamberlain gerði Þrótt að einu besta liði Bestu deildar kvenna eftir að hafa farið með liðið upp um deild.
Nik Chamberlain gerði Þrótt að einu besta liði Bestu deildar kvenna eftir að hafa farið með liðið upp um deild. Vísir/Hulda Margrét

Nik Chamberlain hefur skrifað undir samning um að þjálfa kvennalið Breiðabliks í Bestu deildinni næstu þrjú árin.

Vísir greindi frá þessum tíðindum fyrir tveimur dögum síðan en Breiðablik segir frá samningum í dag sem gildir út árið 2026. Nik tekur við liði Blika sem endaði í öðru sæti í Bestu deildinni í haust en liðið tryggði sér sæti í Evrópukeppninni með góðum endaspretti í deildinni.

Blikarkonur komust í bikarúrslitin í sumar en töpuðu þar óvænt á móti B-deildarliði Víkings. Liðið lenti í mikilli lægð eftir það og missti af baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Ásmundur Arnarsson hætti fljótlega með liðið og þeir Gunnleifur Gunnleifsson og Kjartan Stefánsson kláruðu tímabilið saman ásamt þeim Ólafi Péturssyni og Önu Victoriu Cate.

Nú er Nik Chamberlain ætlað að koma Blikakonum á toppinn á nýjan leik en Breiðablik varð síðast Íslandsmeistari árið 2020 þá í átjánda sinn.

Ásamt því að þjálfa lið meistaraflokks kvenna er Nik ætlað að hafa stórt hlutverk í þróun og samstarfi eldri árganga í yngri flokkum Breiðabliks við Augnablik og meistaraflokk í samvinnu við aðra þjálfara félagsins.

 Honum er ætlað að styðja þannig við markmið félagsins sem uppeldis og afreksfélag eins og kemur fram í frétt á miðlum Breiðabliks.

Nik hefur gert frábæra hluti með kvennalið Þróttar og undir hans stjórn náði kvennalið Þróttar bestu tímabilum sínum í sögunni. Hann tók við liðinu árið 2016 þegar liðið varð í B-deildinni. Þróttarakonur hafa eiginlega bætt sig á hverju tímabili og enduðu í þriðja sæti Bestu deildinni í sumar.  Þær léku líka sinn fyrsta bikarúrslitaleik undir hans stjórn sumarið 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×