Enski boltinn

Sú marka­hæsta sneri aftur eftir ellefu mánaða fjar­veru

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sú markahæsta stýrði fagnaðarlátunum að leik loknum.
Sú markahæsta stýrði fagnaðarlátunum að leik loknum. @ArsenalWFC

Markadrottningin Vivianne Miedema sneri aftur í lið Arsenal þegar liðið lagði Bristol City naumlega á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudag, lokatölur 1-2 og Skytturnar fóru heim til Lundúna með stigin þrjú.

Anna Margaretha Marina Astrid Miedema, betur þekkt sem Vivianne Miedema, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné á síðasta ári. Leikurinn gegn Bristol var hennar fyrsti í 11 mánuði og ljóst er að Skytturnar sem og hollenska landsliðið hafa saknað hennar gríðarlega.

Missti hún til að mynda af HM sem fram fór í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar vegna meiðslanna. Tapaði Holland fyrir verðandi heimsmeisturum Spánar í 8-liða úrslitum. Hvað Arsenal varðar þá endaði félagið í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur byrjað tímabilið í ár heldur illa, féll liðið til að mynda úr leik gegn París FC í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Nú horfir til betri vegar og þó hin írska Katie McCabe hafi skorað bæði mörk Arsenal í leiknum var það endurkoma Miedema sem stal fyrirsögnunum. Hún kom inn af bekknum þegar vel var liðið á uppbótartíma leiksins og minnti strax á sig með frábærri sendingu sem hefði að öllu jafna leitt til marks en svo var ekki að þessu sinni.

Miedema er markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar kvenna á Englandi með 74 mörk. Ofan á það hefur hún gefið 32 stoðsendingar svo það er ljóst að hún er miklu meira en bara markaskorari.

Stutt er síðan Beth Mead sneri aftur í lið Arsenal og það verður að segjast að framlína liðsins er orðin ansi óárennileg ef allar þar haldast heilar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×