Það rusl sem ekki er hægt að endurnota, endurvinna flokkast oft sem blandað rusl. Þetta getur verið ýmis konar rusl: dömubindi, blautklútar, bleyjur, ryksugupokar, kattasandur, hundaskítur, tyggjó, og margt, margt fleira. Hann á heima í tunnunni með svarta miðanum sem á stendur „blandaður úrgangur.“ Tunnan fyrir blandað rusl er þannig illnauðsynlegur kostur í meðhöndlun á rusli. Í gamla daga, áður en við fórum að flokka, fór allt ruslið okkar þangað.

Þangað fer núna vandræðaúrgangur, og blandað rusl, sem hefur hingað til verið urðaður með tilheyrandi raski á landi og losun gróðurhúsalofttegunda. Þangað til nýlega fóru matarleifarnar þínar nefnilega í flokkinn blandað rusl. Vegna þessarar urðunar á lífrænu efni losar urðunarstaðurinn í Álfsnesi um 100.000 tonn af koltvísýringsígildum á hverju ári. Með sérsöfnun á matarleifum í GAJU og útflutningi á öðru blönduðu rusli til brennslu gerum við ráð fyrir að þessi losun verði á bilinu 10.000 til 20.000 tonn eftir 10 til 15 ár.
Ég gæti tekið daginn í að þylja upp hvað á að fara í flokkinn blandað rusl. Til að koma í veg fyrir að þetta verði leiðinlegasta grein sögunnar bendi ég þess í stað á leitargluggann á forsíðu www.sorpa.is, þar sem stendur „Hvað á að gera við...“ Þar getur þú slegið inn algengustu tegundir af því sem fólk þarf að losa sig við, og flokkunarvélin okkar segir þér hvernig þú átt að flokka það. Ef leitarorðið birtist ekki í fellilistanum máttu endilega ýta á enter, því þá fáum við tilkynningu um að einhver hafi leitað að þessu orði og munum gera okkar besta til að tengja það við réttan flokk.
Orkuvinnsla í stað urðunar
Urðun er sísta leiðin til að meðhöndla rusl. Hún fellur neðst í forgangsröðun úrgangsþríhyrningsins sem við fórum yfir í þessari grein. Það er því til mikils að vinna að urða eins lítið og mögulegt er og urða alls ekki rusl sem þarf ekki að urða. Asbest er dæmi um rusl sem er fátt hægt að gera við annað en að urða. Blandað rusl er dæmi um rusl sem þarf ekki að urða. Það á sér nefnilega skárri farveg.
Seinna á þessu ári ætlar SORPA að hætta að urða blandað rusl á urðunarstað SORPU í Álfsnesi, og flytja það þess í stað til útlands – fyrst um sinn til Svíþjóðar – þar sem það verður brennt í sorpbrennslustöð, og hitinn sem skapast við brunann notaður til að framleiða orku. Við gerum ráð fyrir að forða um 40.000 tonnum af rusli – sem er álíka þungt og 40.000 smábílar – frá urðun á hverju ári og koma í skárri farveg. Við þetta lyftist blandaða ruslið upp úr flokki förgunar yfir í flokk endurnýtingar, því brennsla á rusli til orkuvinnslu er skárri kostur en urðun.
Hvers vegna flytjum við rusl til útlands?
Í þessu samhengi er gjarnan velt upp spurningunni: „Hvers vegna að flytja þetta til útlands í orkuvinnslu frekar en að nýta það á Íslandi?“ Þessari spurningu höfum við velt svo mikið fyrir okkur að við höfum komið að gerð tveggja skýrslna um þetta mál, annars vegar þessari hér, og hins vegar þessari hér. Í stuttu máli má segja að ákveðin atriði flæki og hægi á uppbyggingu á sorpbrennslu á Íslandi. Það fyrsta er kostnaður. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu á sorpbrennslu sem gæti unnið orku úr öllu rusli á Íslandi sem á sér ekki skárri farveg er á bilinu 135 - 236 milljón evrur, sem jafngilti um 20-35 milljörðum króna þegar fyrri skýrslan var gefin út.
SORPA og eigendur hennar vildu auk þess koma blönduðu rusli úr urðun sem fyrst. Það tekur hins vegar nokkuð mörg ár að reisa eitt stykki sorpbrennslu, með tilheyrandi undirbúningi vegna staðarvals, deiliskipulags og annars sem tengist framkvæmdum. Útflutningur varð því fyrir valinu, í það minnsta í bili.
Þá erum við búin að afgreiða bæði matarleifar og blandað rusl, sem eru tveir langstærstu ruslflokkarnir sem koma frá heimilum til SORPU. Í næstu viku ætlum við að segja frá því hvað er gert við pappírinn þinn.
Höfundur er samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri SORPU bs.