Haaland mun borga ferðakostnað fyrir um tvö hundruð stuðningsmenn Bryne FK sem þurfa að ferðast til Start fyrir leik liðsins í úrslitakeppninni um laust sæti í norsku úrvalsdeildinni.
Leikurinn fer fram á laugardaginn kemur. Þetta mun kosta Haaland 175 þúsund norskar krónur eða um 2,3 milljónir íslenskra króna.
Bryne er komið í úrslitakeppni B-deildarinnar í fyrsta sinn síðan 2006 og á möguleika að spila í úrvalsdeildinni, Eliteserien, á næsta ári. Liðið endaði í sjötta sæti í b-deildinni og var síðasta liðið sem tryggði sig inn í úrslitakeppnina.
Í Noregi fara tvö efstu liðin beint upp en liðið í þriðja til sjötta sæti spila í úrslitakeppni. Þetta er samt engin venjuleg úrslitakeppni.
Bryne þarf að slá fyrst út Start, þá leggja af velli Kristiansund og að lokum vinna Kongsvinger í hreinum úrslitaleik um laust sæti. Það er því langur vegur enn að stóra takmarkinu og Haaland gæti þurft að gefa meiri pening í framtíðinni því allir leikir Bryne eru á útivelli.
Kristiansund og Kongsvinger bíða eftir leikjum sínum við Bryne og mæta því fersk til leiks sem gerir verkefnið enn erfiðara fyrir Bryne menn.