Sláandi aðstæður blasa við á nýjum myndum frá spítala í borginni Khan Younis á suðurhluta Gasa. Sjúklingar liggja særðir á gólfinu sem er þakið blóðslettum á meðan heilbrigðisstarfsfólk reynir eftir fremsta megni að sinna þeim.
Spítalinn er yfirfullur og þar að auka freista margir þess að leita skjóls við spítalann eftir að hafa flúið sprengjuregn annars staðar - og jafnvel ítrekað.
Forseti Alþjóða Rauða krossins sem skoðaði spítala í borginni í gær segir ástandið óásættanlegt með öllu.
„Það sem ég sá þar er alveg ólýsanlegt. Mér fannst átakanlegast að horfa upp á stórslösuð börn sem höfðu misst foreldra sína og voru ein og yfirgefin,“ sagði Mirjana Spoljaric Egger, þegar hún ræddi við fréttamenn í gær.
Hafa engin tök á því að flýja
Eftir að umsamið hlé á átökum rann út hafa Ísraelar aukið sókn sína á suðurhluta Gasa með það að markmiði að uppræta allar starfsstöðvar Hamas. Ísraelsher varar við hernaðaraðgerðum í og við Khan Younis; birti nýtt rýmingarkort og hvatti almenna borgara til að flýja.

Talsmaður UNICEF segir ástandið ástandið versna með hverri klukkustund og að fólk hafi ekki tök á því að flýja í öruggt skjól. „Svokölluð öryggissvæði eru ekki skilgreind vísindalega. Það er engin skynsemi að baki þeim og þau ganga ekki upp. Stjórnvöldum er kunnugt um þetta. Þetta er tilfinningalaust Þetta er kaldrifjað og stuðlar að tómlæti gagnvart konum og börnum á Gasa. Þetta er átakanlegt og óskiljanlegt,“ James Elder, talsmaður UNICEF.