Utanríkisráðherra Frakklands boðaði til fundarins og í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að sérstakir gestir hans hafi verið yfirmaður Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóri samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum. Alls tóku þátt um 70 fulltrúar ríkja, alþjóðastofnana og alþjóðlegra hjálparsamtaka.
„Í ræðu Íslands var sömuleiðis ákall um tafarlausa lausn gísla, óhindrað aðgengi að nauðþurftum og framfylgd alþjóðalaga ítrekað, í samræmi við ályktun Alþingis frá 9. nóvember sl. um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Loks undirstrikuðu íslensk stjórnvöld að langtímalausn deilunnar felist í tveggja ríkja lausn sem byggi á alþjóðalögum,“ segir ennfremur í tilkynningunni og því bætt við að Ísland hafi lagt 225 m.kr. til UNRWA frá því að átökin hófust 7. október og sé meðal hæstu framlagsþjóða til stofnunarinnar miðað við höfðatölu.