Keppni lýkur í fjórum riðlum af átta í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Manchester United er í slæmum málum á botni A-riðils, stigi á eftir FCK og Galatasaray sem mætast í Kaupmannahöfn. Samkvæmt tölfræðiveitunni Gracenote eru aðeins 8% líkur á að United komist upp úr riðlinum.
Bayern München hefur þegar tryggt sér sigur í riðlinum en United þarf að vinna Bayern á Old Trafford í kvöld til að spila fleiri Evrópuleiki á þessari leiktíð. Ef að United vinnur í kvöld, en FCK og Galatasaray gera jafntefli, þá nær United 2. sæti og fylgir Bayern upp úr riðlinum.
Líkurnar á að komast áfram, skv. Gracenote:
58% FC Kaupmannahöfn
34% Galatasaray
8% Manchester United
Sigur í kvöld myndi jafnframt tryggja United að minnsta kosti 3. sæti, en liðið í 3. sæti fer í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar.
Reyndar gæti jafntefli við Bayern einnig dugað United til að enda í 3. sæti riðilsins, en aðeins ef að FCK tapar fyrir Galatasaray. Stig gæti aldrei dugað United til að komast upp fyrir Galatasaray, vegna innbyrðis úrslita.
Who will from Group A & C pic.twitter.com/PIHItWNIOk
— 433 (@433) December 12, 2023
Krakkarnir í Köben koma FCK í gírinn
Jafntefli myndi duga FCK í kvöld til að enda fyrir ofan Galatasaray, hvort sem það dygði svo til 3. eða 2. sætis en það ylti á því hvort að United ynni Bayern. Með sigri er FCK öruggt um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, og skiljanlegt að Kaupmannahafnarbúar bíði spenntir eftir kvöldinu.
Krakkarnir í strengjasveitinni Zapolski Strygerne gerðu að minnsta kosti sitt til að koma Orra og félögum í rétta gírinn með því að spila meistaradeildarlagið, eins og sjá má.
Kom i den helt rette stemning med denne opførelse af Champions League-hymnen spillet af de dygtige børn og unge fra strygeorkesteret Zapolski Strygerne, der hører under Københavns Kommunes musikskole. De har selv øvet sig på hymnen og sendt videoen til os! #fcklive #ucl pic.twitter.com/tsawTIHOc1
— F.C. København (@FCKobenhavn) December 12, 2023
Braga reynir að stela sætinu af Napoli
Í B-riðli eru úrslitin alveg ráðin og ljóst að Arsenal og PSV fara áfram. Liðin tvö mætast í Hollandi en sigur dygði PSV ekki til að ná efsta sætinu af Arsenal.
Real Madrid hefur sömuleiðis tryggt sér öruggan sigur í C-riðli og Napoli er í mjög góðum málum fyrir kvöldið. Braga þarf tveggja marka sigur gegn Napoli, á Ítalíu, til að taka næstefsta sætið af Ítalíumeisturunum.
Í D-riðli eru svo Real Sociedad og Inter komin áfram. Þau mætast á Ítalíu í kvöld þar sem Inter þarf sigur til þess að ná efsta sæti riðilsins.