Körfubolti

„Hann þarf hjálp“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Draymond Green skilur ekkert í brottvísuninni í nótt.
Draymond Green skilur ekkert í brottvísuninni í nótt. Vísir/Getty

Draymond Green er enn á ný í vandræðum í NBA-deildinni. Hann lék sinn fyrsta leik í nótt eftir fimm leikja bann og var rekinn af velli eftir að hafa slegið andstæðing.

Draymond Green var dæmdur í fimm leikja bann í síðasta mánuði eftir að hafa lent í átökum við Rudy Gobert í leik Golden State Warriors og Minnesota Timberwolves. Hann fékk bannið fyrir að magna upp slagsmál á milli Klay Thompson og Jaden McDaniels. Tók hann Gobert meðal annars hálstaki en Green missti laun sín á meðan á banninu stóð.

Það tók ekki langan tíma fyrir Green að koma sér í vandræði á nýjan leik. Hann var á gólfinu í nótt þegar lið Warriors mætti Phoenix Suns. Í baráttu við Jusuf Nurkic sló Green til Bosníumannsins og var rekinn af velli.

„Hvað er með hann? Ég veit það ekki. Hann þarf hjálp. Ég er bara glaður að hann reyndi ekki að kyrkja mig. Þetta hefur ekkert með körfubolta að gera,“ sagði Nurkic á blaðamannafundi eftir leik.

„Ég reyni bara að spila körfubolta og hann er þarna að kýla frá sér. Við höfum séð þetta oft og ég vona bara að þetta lagist, hvað sem gerist í hans lífi.“

Green iðraðist eftir atvikið í nótt og sagði það ekki hafa verið ætlunin að slá Nurkic.

„Ég biðst afsökunar. Þetta er óheppilegt. Ef ég geri eitthvað viljandi þá biðst ég ekki afsökunar.“

Líklegt verður að teljast að Green verði dæmdur í bann á nýjan leik. Hann hefur verið dæmdur fimm sinnum í bann á ferlinum og í fyrra komst hann í fréttirnar fyrir að hafa slegið liðsfélaga sinn Jordan Poole á æfingu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×