Liðin tvö eru nú að leggja lokahönd á undirbúning sinn fyrir Evrópumótið í handbolta sem fram fer í Þýskalandi og hefst í næstu viku.
Þýska liðið hafði yfirhöndina framan af leik og leiddi með fjórum mörkum í hálfleik, staðan 18-14 eftir að liðið hafði mest leitt með sex mörkum fyrir hlé.
Þjóðverjar voru áfram með góða stjórn á leiknum á upphafsmínútum síðari hálfleiks, en góður kafli portúgalska liðsins sá til þess að munurinn var fljótt saxaður niður í eitt mark í stöðunni 25-24.
Þýska liðið hleypti Portúgölum þó aldrei fram úr sér og vann að lokum nauman eins marks sigur, 34-33. Liðin mætast aftur næstkomandi föstudag og verður það seinasti leikur beggja liða áður en EM hefst.