Dýravelferð og vernd atvinnuréttinda
Þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna voru ekki sammála um útgangspunkt í áliti umboðsmanns alþingis um hvalveiðibann matvælaráðherra þegar þau ræddu málið á Sprengisandi í morgun.
„Ég les það út úr áliti umboðsmanns að það verður að tryggja að löggjöfin geti tekið með skýrum hætti á velferð skepna og í þessu tilfelli hvala. Ég lít á það sem næstu áskorun,“ sagði Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna.
„Velferð dýra er eitthvað sem við verðum að hafa skilyrðislaust að leiðarljósi þegar við erum að nýta okkur skepnur, hvort sem það eru húsdýr eða villt dýr eins og í þessu tilfelli.“
Alvarleg brot
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks segir alla sammála um mikilvægi dýravelferðar en það breyti því ekki að ákvörðun Svandísar hafi ekki verið í samræmi við lög.
„Þarna er í rauninni brotið á stjórnarskrárvörðum mannréttindum. Grunnreglum stjórnskipunarréttar um vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis sem eru mikilvæg réttindi og má ekki taka af léttuð. Dýravelferð í þessu samhengi skiptir máli en mér finnst ekki hægt að drepa málum á dreif með því að horfa fram hjá valdníðslu ráðherra gagnvart mjög mikilvægum réttindum fyrir fólk í þessu landi.“
Í spilaranum hér að neðan má hlusta á umræðuna í heild sinni.
Sambærilegt álitinu um Íslandsbankasöluna?
Þá spurði þáttastjórnandinn, Kristján Kristjánsson, hvort málið væri sambærilegt áliti umboðsmanns sem snéri að Bjarna Benediktssyni og Íslandsbankasölunni en Bjarni sagði af sér sem fjármálaráðherra eftir að álitið féll og fór yfir í utanríkisráðuneytið.
„Matvælaráðherra í þessu tilfelli brýtur gegn grunnreglum stjórnskipunarréttar og bakar að öllum líkindum ríkinu skaðabótaskyldu og hvorugt á við í tilviki fjármálaráðherra. Ekki síður þá tekur matvælaráðherra sína ólögmætu ákvárðun í trássi við ráðleggingar starfsfólks ráðuneytisins og annarra sérfræðinga á meðan fjármálaráðherra fylgdi ráðleggingum sérfræðinga,“ sagði Hildur.
Orri segir ekki rétt að matvælaráðherra hafi farið fram með sínar ákvarðanir í trássi við sérfræðinga.
„Hvaðan kemur þetta?“ spyr Orri Páll. „Ég bara kannast ekki við þetta og eiginlega hafna því að það sé verið að halda því að ráðherrann hafi verið í einhverju sóló spili hér.“