Handbolti

„Núna sýnum við karakterinn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson reynir að verja skot frá Ungverjum í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson reynir að verja skot frá Ungverjum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska liðsins, var allt annað en sáttur með sig og frammistöðu liðsins eftir stórt tap á móti Ungverjum á EM í kvöld.

Hvernig leið Björgvini eftir þennan leik í kvöld. „Hræðilega, bæði hvernig þetta endaði og hvernig leikurinn þróaðist,“ sagði Björgvin Páll í viðtali við Sindra Sverrisson eftir leikinn. Þegar leið á seinni hálfleikinn var eins og ekkert gengi upp hjá íslenska liðinu.

„Það kom upp ákveðið vonleysi og ef ég greini það beint eftir leik þá var eins og viljum þetta aðeins of mikið. Við erum vel peppaðir í leikinn og að berjast fyrir land og þjóð. Við erum að þessu fyrir okkur sjálfa og fyrir liðið. Þegar fór að ganga illa, þá urðum við stífir og niðurlútir yfir því að það væri að ganga illa. Það er hræðilegt. Ekki vantar gæðin við vitum það en það vantar aðeins að við getum sýnt það út í svona leik,“ sagði Björgvin.

„Mitt hlutverk í þessu liði er að koma inn á og gera gagn. Mér tókst það ekki í dag og ég er pirraður út í sjálfan mig að gera það ekki. Þetta var að klikka hjá okkur á öllum sviðum leiksins, sóknarlega, varnarlega og í markvörslunni. Það er það sorglega við þetta að það skuli ekkert ganga í svona leik,“ sagði Björgvin.

Hvernig takast strákarnir í liðinu á við svona stöðu? Næsti leikur er bara eftir tvo daga.

„Við förum með slatta af óbragði í munninum inn í milliriðilinn og hvernig við svörum þessu þurfum við bara að sýna inn á vellinum. Við þurfum að koma með einhver svör og þetta verður erfitt,“ sagði Björgvin.

„Núna sýnum við karakterinn. Það er enginn karakter að koma til baka á móti Serbíu þar sem þeir gera einhver mistök. Það er karakter að stíga upp úr svona stöðu og snúa henni sér í hag. Við erum að fara í fjóra erfiða leiki á móti heimsklassa liðum og draumurinn okkar lifir enn þá eins skringilega og það hljómar akkúrat núna sem er að komast á Ólympíuleikana næsta sumar. Við höfum trú á því til síðasta dags,“ sagði Björgvin.

Klippa: Viðtal við Björgvin Pál eftir Ungverjaleik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×