Handbolti

Valur og Fram með stór­sigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórey Anna var óstöðvandi í dag.
Þórey Anna var óstöðvandi í dag. Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Vals og Fram unnu stórsigra í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Þá vann ÍBV góðan heimasigur í Vestmannaeyjum.

Íslandsmeistararnir fengu Aftureldingu í heimsókn en sá leikur náði í raun aldrei að vera spennandi, lokatölur á Hlíðarenda 33-18.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var í guðlegum ham en hún skoraði 13 mörk í 14 skotum í dag. Þar á eftir komu Lilja Ágústsdóttir og Sigríður Hauksdóttir með 5 mörk hvor.

Markverðir Vals áttu líka stórleik, Hafdís Renötudóttir varði 11 skot og var með 50 prósent markvörslu og Sara Sif Helgadóttir gerði gott betur. Hún varði 8 skot og var með 53 prósent markvörslu.

Katrín Helga Davíðsdóttir var markahæst hjá Aftureldingu með 5 mörk og Saga Sif Gísladóttir varði 13 skot í markinu.

Valur er sem fyrr á toppi deildarinnar með 13 sigra og eitt tap að 14 umferðum loknum. Afturelding er í 6. sæti með sex stig.

Á Akureyri var Fram í heimsókn en heimakonur í KA/Þór máttu síns lítils gegn sterku liði Fram í dag, lokatölur 18-28.

Nathalia Soares Baliana skoraði 7 mörk í liði KA/Þórs og Matea Lonac varði 14 skot í markinu. Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði 10 mörk í liði Fram og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði 7 mörk. Ethel Gyða Bjarnasen varði 7 skot í markinu og Ingunn María Brynjarsdóttir varði 4 skot.

Fram er í 3. sæti með 20 stig á meðan KA/Þór situr á botni deildarinnar með fimm stig.

Að lokum vann ÍBV sex marka sigur á Stjörnunni, lokatölur 31-25. Sunna Jónsdóttir skoraði 9 mörk í liði ÍBV á meðan Marta Wawrzykowska varði 16 skot í markinu. Hjá Stjörnunni var Helena Rut Örvarsdóttir með 8 mörk og Darija Zecevic varði 15 skot í marki gestanna.

ÍBV er í 4. sæti með 16 stig á meðan Stjarnan er í næstneðsta sæti með fimm stig, líkt og botnlið KA/Þórs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×