Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun vísaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata til ummæla Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra í Ríkissjónvarpinu um að verkalýðshreyfingin yrði að draga úr kröfum sínum vegna útgjalda ríkisins í tengslum við hamfarirnar í Grindavík og viðbragða fjármálaráðherra við þeim ummælum.

Nú væri búið vísa deilu breiðfylkingar ASÍ félaga til ríkissáttasemjara vegna lækkunar gagntilboðs Samtaka atvinnulífsins að sögn talsmanna breiðfylkingarinnar. Spurði Þórhildur Sunna fjármálaráðherrann hvert hafi verið markmið Bjarna með yfirlýsingum hans.
„Var það til að hleypa illu blóði í kjaraviðræður. Var það til að stilla verkalýðshreyfingunni og launafólki upp á móti Grindvíkingum og draga úr samkennd samfélagsins með réttmætum kröfum þeirra um bætt lífsskilyrði? Eða var það til að breiða yfir að það stóð aldrei til að hálfu Sjálfstæðisflokksins að koma til móts við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur um að millifærslukerfin okkar séu uppfærð í takt við tímann. Í takt við verðlag. Vegna þess að það er andstætt hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins,“ spurði Þórhildur Sunna.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra sagði það fyrst og síðast vera á ábyrgð aðila á vinnumarkaði að semja um kaup og kjör. Þrátt fyrir töluverða og of mikla aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum í gegnum tíðina, teldi hún gríðarlega verðmætt og mikilvægt að ná nú ábyrgum kjarasamningum til langs tíma.
„Að sjálfsögðu er ekki með þessu markmið að hleypa illu blóði í kjaraviðræður þeirra. Það vill bara þannig til, og mér finnst það einhvern veginn liggja svo í augum uppi, að það ástand sem við erum í núna hefur að sjálfsögðu áhrif á getu ríkissjóðs. Og hvað getur talist eðlilegt, ábyrgt og skynsamlegt til skemmri tíma og lengri tíma að ríkisfjármálum sé beitt og hversu mikil viðbótarútgjöld eiga að vera til næstu ára,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir á Alþingi í morgun.