„Við erum bara í startholunum og við fylgjumst vel með henni. Eins og alltaf svosem. En óvissustig þýðir bara að við teljum mögulegt að hún gæti lokað.“
Aðspurður út í ófremdarástand sem myndaðist á Reykjanesbrautinni í desember 2022 sem raskaði umferð á Keflavíkurflugvelli, og hvort slíkt geti mögulega gerst aftur segir G. Pétur: „Við brugðumst náttúrulega við því þannig að við erum með aukið viðbragð. Það voru mjög sérstakar aðstæður. Við höfum aukið möguleika okkar á því að bregðast við ef slík staða kemur upp aftur, en það voru öðruvísi aðstæður en eru núna. Það var mikill snjór sem kom, og úr annarri átt, og alls konar.“
G. Pétur segir að ef Reykjanesbrautinni verði lokað í dag þá verði það frekar vegna vinds og hálku. Þá verði líklega um skammtíma lokun að ræða. „Ef það kæmi til lokunar þá held ég að hún myndi ekki standa yfir mjög lengi.“
Fleiri vegir á suðvestur horninu og í kringum höfuðborgarsvæðið eru á óvissustigi. „Það eru fyrst og fremst fjallvegir sem búast má við að gætu lokað um tíma. Það fer eftir því hvernig veðrið gengur yfir og hvernig það leggur sig.“
Hann segir að fólk megi fylgjast vel með veðrinu og skoða vefinn umferdin.is.