Í dómi Landsréttar frá 1. desember síðastliðnum segir að konan hafi höfðað mál til heimtu bóta vegna stórkostlegs gáleysis sem læknir hefði sýnt við undirbúning og framkvæmd aðgerðar á henni árið 2015 þar sem vinstri eggjastokkur hennar var fjarlægður án hennar samþykkis.
Undir rekstri málsins í héraði hafi verið gerð sátt um aðrar kröfur konunnar en miskabótakröfu hennar. Héraðsdómur sýknaði Sjúkratryggingar af þeirri kröfu á þeim grundvelli að ekki hafi verið um stórkostlegt gáleysi læknisins að ræða. Vísir fjallaði ítarlega um niðurstöðu héraðsdóms á sínum tíma.
Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfu konunnar um miskabætur. Í dóminum sagði að þar sem miskabætur samkvæmt skaðabótalögum væru ekki sérstaklega undanskildar í lögum um sjúklingatryggingu yrði að skýra ákvæðið svo að það tæki til miskabóta á grundvelli nefnds ákvæðis skaðabótalaga. Einnig væru uppfyllt saknæmisskilyrði þess ákvæðis.
Byggðu á rangri túlkun
Í ákvörðun Hæstaréttar um áfryjunarleyfi segir að Sjúkratryggingar hafi óskað eftir áfrýjunarleyfi þann 28. desember síðastliðinn.
Sjúkratryggingar hafi byggt á því að túlkun Landsréttar á ákvæði laga um sjúklingatryggingu væri röng og að ákvæðið ætti ekki að leiða til þess að greiða skuli skaðabætur vegna allra þeirra bótaflokka sem tilteknir eru í skaðabótalögum.
Þá hafi Sjúkratryggingar byggt á því að niðurstaða Landsréttar væri bersýnilega röng, meðal annars um mat á saknæmi. Jafnframt hafi Sjúkratryggingar byggt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þar sem dómurinn óraskaður myndi fela í sér þá grundvallarbreytingu að starfsmönnum Sjúkratrygginga yrði fengið hlutverk rannsóknaraðila um sök heilbrigðisstarfsmanna.
Fallist á að dómur gæti haft fordæmisgildi
Að endingu hafi Sjúkratryggingar vísað til þess að niðurstaða málsins hefði verulegt almennt gildi um afgreiðslu bóta úr sjúklingatryggingum.
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að að virtum gögnum málsins verði talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um greiðsluskyldu eftir lögum um sjúklingatryggingu. Beiðni um áfrýjunarleyfi væri því samþykkt.