Í auglýsingu frá ráðuneytinu segir að þau leiti að „framsýnum og öflugum stjórnanda í embætti ráðuneytisstjóra“. Starfsskyldur hans eru sagðar víðtækar og að hann beri, meðal annars, fjárhagslega og faglega ábyrgð gagnvart ráðherra á starfsemi ráðuneytisins.
Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í ráðuneytinu, var í janúar settur ráðuneytisstjóri eftir að Guðmundur Árnason, sem hafði sinnt starfinu síðustu fjórtán ár, tilkynnti að hann myndi senn láta af störfum. Hann tekur fljótlega við sendiherrastöðu í Róm.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði hann í sendiherrastöðuna þegar hann tók við sem utanríkisráðherra. Á sama tíma skipaði hann fyrrverandi aðstoðarkonu sína, Svanhildi Hólm, í stöðu sendiherra í Washington.
Samhæfir stefnumótun
Þá segir að ráðuneytisstjóra beri að veita ráðherra upplýsingar og ráðgjöf þannig að ráðherra geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun og sé vel upplýstur varðandi þau mál sem unnið er að.
„Ráðuneytisstjóra ber að samhæfa stefnumótun á öllum málefnasviðum ráðuneytisins, stuðla að samhentri stjórnsýslu og samræma stefnu og aðgerðir ráðuneytisins við vinnu annarra ráðuneyta þegar við á, auk þess að tryggja að afgreiðsla mála sé fagleg.“
Gerðar eru ýmsar menntunar- og hæfnikröfur til ráðuneytisstjórans.
„Leitað er að einstaklingi sem býr yfir ríkri hæfni í samskiptum og samvinnu og hefur metnað til að taka þátt í að leiða Ísland til aukinnar hagsældar. Ráðuneytisstjóri þarf að vinna af heilindum að innleiðingu stefnu stjórnvalda hverju sinni, með hag samfélagsins að leiðarljósi,“ segir í auglýsingunni áður en helstu skilyrði eru listuð upp.
Átta stofnanir heyra undir ráðuneytið
Þar er til dæmis gerð krafa um háskólamenntun, leiðtogahæfileikum, stjórnunarreynslu, mjög góða þekking og reynslu á sviði reksturs, fjármála og mannauðsmála. Þá er einnig gerð krafa um reynslu af stefnumótun og áætlanagerð, þekkingu á málefnasviðum ráðuneytisins, mjög góðri samskiptahæfni og þekkingu á bæði íslensku og ensku.
Í auglýsingunni kemur einnig fram að í ráðuneytinu fáist starfsfólk við fjölbreytileg viðfangsefni sem hafi snertingu við flest svið samfélagsins, í umhverfi sem er lifandi og krefjandi.
„Meginhlutverk ráðuneytisins felst í yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála. Ráðuneytið fer með málefni fjármálamarkaðarins, ber ábyrgð á bættum stjórnunarháttum og áætlanagerð, hefur með höndum virka stjórn mannauðsmála ríkisins og er leiðandi í umbótum og nýsköpun í rekstri ríkisins. Í ráðuneytinu eru sjö skrifstofur auk þess sem kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Stafrænt Ísland eru hluti af ráðuneytinu. Átta stofnanir heyra undir ráðuneytið.“