Gummersbach heldur áfram að gera gott mót í Þýskalandi og vann góðan útisigur á Lemgo í kvöld. Grunnurinn var lagður í fyrri í fyrri hálfleik en Lemgo skoraði aðeins 11 mörk á þeim tíma gegn 15 hjá gestunum.
Þó sóknarleikur gestanna hafi verið örlítið stirðari í síðari hálfleik þá lauk leiknum með þriggja marka sigri þeirra, lokatölur 23-26.
Arnór Snær skoraði fjögur mörk í liði Gummersbach og Elliði Snær Viðarsson eitt. Sem fyrr er Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari liðsins. Með sigrinum lyftir Gummersbach sér upp í 6. sætið með 24 stig að loknum 22 leikjum.
Í Frakklandi var Viktor Gísli Hallgrímsson í marki Nantes þegar liðið gerði jafntefli við Chartres á útivelli, 28-28. Viktor Gísli varði sjö skot í leiknum. Nantes er í 2. sæti með 30 stig eftir 18 leiki.