„Eins og staðan er núna, þá er Heimaey VE „stand by“ í Vestmannaeyjum ef afgerandi fréttir af nýrri loðnugöngu berast sem bregðast þyrfti við með bergmálsmælingu og sýnatöku,“ segir Birkir Bárðarson fiskifræðingur og verkefnisstjóri loðnuleitarinnar.
„Verið er að fylgjast með fréttum af veiðiskipum og rannsóknaskipum Hafró sem núna eru í marsralli. Fréttir hafa borist af loðnu, bæði á grunnum fyrir Suður- og Austurlandi en einnig út af Vestfjörðum og Húnaflóa,“ segir fiskifræðingurinn.

„Enn sem komið er hefur ekki þótt ástæða til að bregðast við en það er náttúrulega stöðugt verið að meta það hvort um sé að ræða fréttir sem bregðast þurfi við,“ segir Birkir ennfremur.
Á vef Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum fyrir tveimur vikum var því velt upp hvort loðnan hefði ekki fundist vegna þess að hún væri að bíða eftir nýju tungli. Vitnað var til fornrar speki japanskra sjómanna um að fiskistofnar hefðu hægt um sig fyrir fullu tungli. Þess má geta að nýtt tungl á Íslandi verður næstkomandi sunnudag, 10. mars.