Sport

Sól­veig hætt og út­skýrir erfiðustu á­kvörðun lífsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sólveig Sigurðardóttir hefur tekið þá risastóru ákvörðun að hætta að keppa í CrossFit.
Sólveig Sigurðardóttir hefur tekið þá risastóru ákvörðun að hætta að keppa í CrossFit. @solasigurdardottir

Sólveig Sigurðardóttir, ein besta Crossfit-kona Íslands, hefur ákveðið að hætta keppni. Hún fer yfir ákvörðunina í myndbandsbloggi á YouTube. 

Sólveig sló í gegn árið 2022 og komst þá alla leið á heimsleikana en náði ekki að fylgja því eftir í fyrra þar sem hún sat eftir í undanúrslitunum.

@solasigurdardottir

Sólveig ákvað að útskýra stöðuna á sér með því að taka upp myndbandsblogg. Hún byrjar á því að taka fram að hún hafi ekki undirbúið einhvern ákveðinn texta.

„Ég ætla bara að segja það sem liggur á hjarta mínu. Ég mun reyna að vera eins opinská og hreinskilin og ég get,“ segir Sólveig í upphafi myndbandsins. Hún segist ekki hafa planað það að verða afreksíþróttakona og að það hafi aldrei átt að vera hennar saga.

Það fer ekki á milli mála að Sólveigu er mikið niðri fyrir og það tekur augljóslega mikið á hana að ræða þessi mál. 

Tíu ár síðan hún byrjaði í CrossFit

„Ég hef notið íþróttaferils míns mjög mikið og hann hefur kennt mér svo mikið um mig sjálfa. Ég væri ekki sú persóna sem ég er í dag nema fyrir öll þessi ár mín í CrossFit. Það eru liðin tíu ár síðan ég byrjaði í CrossFit og þetta er búið að vera ferðalag sem ég gat ekki séð fyrir,“ sagði Sólveig.

„Ég er þakklát fyrir öll tækifærin sem ég hef fengið og öll tækifærin sem ég hef búið til fyrir mig sjálfa. Það má ekki gleyma að þetta er ekki bara heppni heldur mjög mikil og erfið vinna,“ sagði Sólveig sem þakkar öllum þeim sem hafa hjálpað henni.

Hún talar sérstaklega um sumarið sem hún tryggði sig inn á heimsleikana og það mikla afrek sem það er en um leið hvernig hún gerði sjálf lítið úr því afreki.

„Ég er leið yfir því að hafa ekki leyft mér að njóta þess meira því þú veist aldrei hvernig málin þróast,“ sagði Sólveig. Hún segist hafa verið að glíma við mörg persónuleg vandamál sem hún ekki tilbúin að segja frá við þetta tilefni en kannski einhvern tímann seinna.

Mikið stress

Sólveig talar um að hafa farið í gegnum mikið andlegt og líkamlegt stress í kringum heimsleikana.

„Ég hefði viljað sjá mig vera hundrað prósent þarna því ég náði ekki að gera mitt besta. Ég stóð mig ekki nógu vel og ég er leið yfir því. Það tímabil tók mikinn toll af mér andlega,“ sagði Sólveig.

Sólveig Sigurðardóttir varð í 34. sæti á heimsleikunum 2022.@solasigurdardottir

„Svo mikið að ég gat ekki einu sinni hugsað um CrossFit leikana. Ég vildi ekki einu sinni horfa á myndir frá þessum tíma í mínu lífi. Á þessum tíma gat ég ekki beðið eftir því að keppnin væri búin,“ sagði Sólveig.

Brotin eftir heimsleikana

Hún átti mjög erfitt eftir heimsleikana og var að berjast við þunglyndi en segir að vinir og fjölskylda hafi hjálpað sér.

„Ég var samt svolítið brotin á eftir. Ég gerði allt mitt besta á árinu 2023 en ég hafði ekki alveg náð mér andlega eftir 2022 tímabilið. 2023 tímabilið fór ekki vel og þetta var mjög erfitt,“ sagði Sólveig.

Hún tók sér frí í júní frá sérstökum CrossFit æfingum í fyrra og ákvað að gefa sér tíma til að finna út úr því hvað hún vildi gera. „Hvort það að vera afreksíþróttakona væri það eina sem skipti mig máli. Á þessu getustigi þarf allt lífið að snúast um CrossFit sem það hafði gert,“ sagði Sólveig.

Sex mánuðum síðar

Hún gerði það sem hana langaði til að gera en hætti þó ekki að hreyfa sig.

„Núna sex mánuðum síðar hef ég ákveðið að hætta að keppa í CrossFit. Það er svo margt annað í mínu lífi sem ég vil setja í forgang. Ég vil nota minn tíma og þekkingu til að hjálpa öðru fólki,“ sagði Sólveig.

„Að taka þessa ákvörðun var eitt það erfiðasta sem ég hef gert í mínu lífi,“ sagði Sólveig.

Það má horfa á allt myndbandið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×