Svandís hefur undanfarna tæpa þrjá mánuði verið í veikindaleyfi eftir að hún greindist með krabbamein í brjósti. Sama dag og ráðherrann tilkynnti um veikindaleyfið hugðist Inga Sæland formaður Flokks fólksins leggja fram vantrauststillögu á hendur Svandísi vegna ákvörðunar hennar um tímabundna stöðvun hvalveiða á síðasta ári. Tillagan var dregin til baka.
„Ég kem aftur til starfa á morgun að loknu veikindaleyfi. Meðferðin hefur gengið afbragðs vel, horfur góðar og mér líður vel,“ segir Svandís nú í tilkynningu.
„Framundan er eftirlit og eftirfylgni, bjartsýni og fullvissa um bjartari tíð. Ég er þakklát fyrir allar kveðjurnar, hlýjuna og góðar óskir og hlakka til verkefnanna framundan!“