Eins og fram hefur komið hefur Svandís tilkynnt að hún muni snúa aftur til starfa á morgun. Hún fór í veikindaleyfi í janúar þegar hún greindist með krabbamein í brjósti. Sama dag hugðist Inga leggja fram vantrauststillögu á hendur ráðherranum vegna ákvörðunar hennar um tímabundna stöðvun hvalveiða á síðasta ári en dró tillöguna til baka vegna veikinda Svandísar.
„Þetta vantraust hefur ekki farið neitt, það bara bíður eftir því að hún geti varið það,“ segir Inga í samtali við Vísi. Hún segir tillöguna verða lagða fram á þingi þegar tækifæri gefst eftir að það kemur saman í næstu viku eftir páskafrí.
Inga segir málið alltaf hafa snúið að lögbrotum Svandísar í starfi en ekki hvalveiðum sem slíkum. Svandís hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt þegar hún stöðvaði hvalveiðar og brotið stjórnsýslulög líkt og fram hafi komið í áliti umboðsmanns.