Aron Guðmundsson skrifar frá Aachen
Leikur Þýskalands og Íslands á morgun er viðureign toppliða fjórða riðils í A-deild undankeppninnar. Bæði lið fóru með sigur úr býtum í viðureignum sínum í fyrstu umferð, Ísland vann öruggan 3-0 sigur á Póllandi heima á Kópavogsvelli á meðan að þær þýsku lentu í basil með nágranna sína frá Austurríki en höfðu að lokum 3-2 sigur eftir að hafa lent tveimur mörkum undir snemma leiks.
Í íslenska landsliðinu er að finna góðan hóp leikmanna sem að spila í þýsku úrvalsdeildinni. Meðal þeirra leikmanna er Sveindís Jane sem hefur getið sér gott orð með liði Wolfsburg. Þjóðverjarnir hafa ekki bara áhyggjur af maraskorun og sköpunargáfu Sveindísar Jane. Þeir eru einnig vel meðvitaðir um ógnina sem skapast út frá löngu innköstum hennar.
„Hún er hreint út sagt frábær leikmaður,“ segir Vivien Endemann, liðsfélagi Sveindísar hjá Wolfsburg og leikmaður þýska landsliðsins. „Hún býr yfir gríðarlega miklum hraða og löngu innköstin hennar eru raunverulegt vopn.“
Kathrin Hendrich, leikmaður Þýskalands sem einnig spilar með Sveindísi hjá Wolfsburg, telur sig svo hafa lausnina við því að stoppa Sveindísi.
„Maður verður að trufla hana ítrekað um leið og hún fær boltann. Ef hún kemst á skrið þá verður erfitt að stoppa hana.“
Búist er við um og yfir fimmtán þúsund manns á leik Þýskalands og Íslands á morgun á Tivoli leikvanginum í Aachen. Þýska liðið mætir til leiks með töluverða pressu á sér efir nauman sigur gegn nágrönnum sínum frá Austurríki í fyrstu umferð undankeppninnar.
Þá dregur það ekki úr pressunni fyrir leikmenn liðsins að verðandi þjálfari þess, Christian Wück sem mun taka við þýska landsliðinu, eftir Ólympíuleikana í sumar, af bráðabirgðaþjálfaranum Horst Hrubesch, verður á meðal áhorfenda á Tivoli leikvanginum.
Verður það í fyrsta sinn sem hann mætir á leik hjá liðinu eftir að greint frá því að hann yrði næsti landsliðsþjálfari Þýskalands.