Íslenski boltinn

„Vestri hefur verið að taka leik­hlé“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davíð Smári, þjálfari Vestra, og markvörður liðsins, William Eskelinen.
Davíð Smári, þjálfari Vestra, og markvörður liðsins, William Eskelinen. Vísir/Hulda Margrét

„Þeir tóku leikhlé, Vestri hefur verið að taka leikhlé í leikjum sínum,“ segir Lárus Orri Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, um lið Vestra í Bestu deildar karla í fótbolta.

„Þarna kallar hann [Davíð Smári, þjálfari Vestra] í markmanninn sinn og bendir honum á að fara niður. Hann [William Eskelinen, markvörður Vestra] gerir eins og honum er sagt, leggst niður og sjúkraþjálfarinn kemur inn á. Veit ekki hvort við sjáum það, held hann hafi valið mjöðmina í þetta skipti,“ bætir Lárus Orri við.

Stúkan sýnir svo dæmi úr 1. umferð Bestu deildar þegar Vestri mætti Fram. Þar fór William einnig niður. Í lýsingu Vísis frá þeim leik segir: 

„Nú liggur Eskelinen. Markvörður Vestra meiddist í skoti Más. Skutlaði sér og lenti eitthvað illa á hægri öxlinni. Reynir að harka þetta af sér.“

Ekki nóg með það heldur sýna þeir einnig atvik úr leik gegn KA í 3. umferð þar sem William settist einnig niður og sjúkraþjálfari Vestra þurfti að koma inn á.

„Um leið og markmaðurinn fór niður í þessum leik hlupu allir leikmennirnir að varamannabekknum þar sem er tekinn léttur fundur,“ sagði Lárus Orri einnig.

Klippa: Stúkan: „Vestri hefur verið að taka leikhlé“

Að taka leikhlé er engin nýjung í fótbolta en til að mynda hefur Newcastle United notað þetta óspart í leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er greinilega farið að ryðja sér til rúms hér á landi og nefnir Lárus Orri meðal annars KR sem annað lið sem hefur nýtt sér þessa gloppu í regluverkinu. 

Umræðu Stúkunnar í heild sinni má sjá í spilaranum hér ofar í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×