„Ég fór að sofa þegar ég kom heim. Vaknaði svo og hugsaði þetta er ekki að fara að gerast, en sem betur fer bara náði ég að borða og koma mér í gang.“
Aníta leikur í háskólaboltanum í Bandaríkjum með Western Carolina University.
Hún átti að koma heim næsta mánudag og verma varamannabekk Breiðabliks í sumar en aðalmarkvörður liðsins, Telma Ívarsdóttir, nefbrotnaði í síðasta leik og því ákveðið að flýta heimferðinni.
„Ég átti að koma á mánudaginn en því var breytt til að ég gæti náð leiknum í dag.“
Það var ekki langur fyrirvari og allt stefndi í að Rakel Hönnudóttir, útileikmaður, myndi verja mark Breiðabliks, en Aníta komst til landsins rétt í tæka tíð.
„[Lenti] klukkan sex. Ég er spennt að fara heim að sofa.“
Það var ekki að sjá neina flugþreytu hjá henni, hélt markinu hreinu og átti frábæra vörslu í fyrri hálfleik sem kom í veg fyrir að FH tæki forystuna.
„Takk fyrir og jú, bara mjög gaman. Breiðablik er geggjað lið, gaman að sjá þær spila og vera partur af þessum sigri.“