Skoðun

Hug­myndin sú sama í grunninn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Með Evrópusambandinu er verið að gera tilraun til þess að sameina Evrópu undir einni stjórn á hliðstæðan hátt í grundvallaratriðum og reynt hefur verið áður í sögunni. Meðal annars af Rómarveldi undir forystu Júlíusar Sesars, Karli mikla Frankakonungi og Napóleon Bónaparte, keisara Frakklands. Munurinn er hins vegar sá að í tilfelli sambandsins er verið að beita annarri aðferðafræði til þess að ná því markmiði.

Hér er um að ræða óbeina tilvitnun í ræðu sem flutt var af Valéry heitnum Giscard d’Estaing, fyrrverandi forseta Frakklands og aðalhöfundi stjórnarskrár Evrópusambandsins sem í dag nefnist Lissabon-sáttmálinn og er grundvallarlöggjöf þess. Ræðuna flutti hann 29. maí árið 2003 í borginni Aachen í Þýzkalandi þar sem hann tók við Karlamagnúsarverðlaununum fyrir framlag sitt til samrunaþróunar sambandsins:

„Heimsálfan okkar hefur orðið vitni að ítrekuðum tilraunum til þess að sameina hana; Sesar, Karlamagnús og Napóleon ásamt öðrum. Markmiðið hefur verið að sameina álfuna með vopnavaldi, með sverðinu. Við viljum hins vegar sameina hana með pennanum. Mun penninn ná árangri þar sem sverðið hefur endanlega beðið ósigur? Mun fjaðurpenninn vega þyngra en blóði drifið sverðsblaðið á vogarskálum sögunnar?“

„Föderalen europäischen Bundesstaat“

Málflutningur Giscard d’Estaing þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess að markmiðið með samrunaþróuninni innan Evrópusambandsins og forvera þess hefur frá upphafi verið sambandsríki. Þannig kemur til að mynda fram í Schuman-yfirlýsingunni frá 9. maí 1950, sem markaði upphaf sambandsins eins og við þekkjum það í dag, að þróunin myndi að lokum leiða til evrópsks sambandsríkis („the federation of Europe“).

Franski diplómatinn Jean Monnet, sem öðrum fremur hefur verið nefndur faðir Evrópusambandsins, fjallar enn fremur ítarlega um það í endurminningum sínum hvernig stefnt hafi verið að Bandaríkjum Evrópu allt frá upphafi. Markvisst hefur verið unnið að því markmiði allar götur síðan. Hrein leitun er að pólitískum forystumönnum innan sambandsins á liðnum árum sem ekki hafa lýst yfir stuðningi við það.

Markmiðið um eitt ríki rataði nú síðast til að mynda í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands þar sem lögð er áherzla á áframhaldandi þróun Evrópusambandsins í átt að evrópsku sambandsríki eða eins og það er orðað á þýzku: „föderalen europäischen Bundesstaat“. Lykilatriðið hér er vitanlega orðalagið áframhaldandi þróun sem vísar til þess að sambandið hefur í gegnum tíðina jafnt og þétt öðlast fleiri einkenni ríkis.

Fimm prósent af þingmanni á Alþingi

Hversu fjölmenn ríki Evrópusambandsins eru ræður fyrst og fremst vægi þeirra þegar ákvarðanir eru teknar innan þess. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á töku ákvarðana þar sem þau eiga fulltrúa. Þetta á ekki sízt við um ráðherraráð sambandsins þar sem vægi Íslands yrði allajafna einungis um 0,08%. Á við 5% hlut í þingmanni á Alþingi. Þetta er „sætið við borðið“.

Milliríkja- og alþjóðasamstarf miðast allajafna við það að ríki sitji við sama borð þegar teknar eru ákvarðanir. Eitt ríki, eitt atkvæði. Áherzla Evrópusambandsins á íbúafjölda þegar vægi ríkja þess er annars vegar er hins vegar eðlileg í ljósi lokamarkmiðs samrunaþróunarinnar innan sambandsins í átt að einu ríki. Til að mynda miðast fjöldi þingmanna hvers ríkis Bandaríkjanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings við íbúafjölda þeirra.

Hver þróunin hefur verið innan Evrópusambandsins og hvert hún stefnir er eðli málsins samkvæmt lykilatriði þegar rætt er um sambandið og hvort rétt væri fyrir Ísland að verða hluti þess. Þá er ekki síður mikilvægt hver staða landsins yrði innan Evrópusambandsins þegar kæmi að því að hafa áhrif á ákvarðanir. Fyrir utan annað er vitanlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er einu sinni setið við sama borð.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)




Skoðun

Sjá meira


×