Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að lánveitendur séu alþjóðlegir stofnanafjárfestar með mikla reynslu af fjármögnun og þekkingu á fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum. Lánafyrirgreiðslan staðfesti traust þeirra á rekstri og framtíðaráætlunum Alvotech.
„Samningurinn er um lánafyrirgreiðslu að fjárhæð allt að 965 milljónir Bandaríkjadala. Gert er ráð fyrir að útgreiðsla verði í júlí 2024. Fyrri hluti, lán að fjárhæð 900 milljónir Bandaríkjadala ber 6,5% álag á SOFR (millibankavexti í dollurum), en Alvotech hefur einnig rétt til að draga á 65 milljónir til viðbótar og ber sá hluti lánsins 10,5% álag á SOFR,“ segir í tilkynningunni.
Lánið er á fyrsta veðrétti, til fimm ára, með lokagjalddaga í júní 2029. Alvotech hyggst að nýta lánið til þess að endurfjármagna útistandandi skuldir, þar með talið þau lán sem eru með lokagjalddaga á næsta ári. Eftirstöðvunum verður varið til að styrkja lausafjárstöðu félagsins.
„Með þessari lánafyrirgreiðslu aukum við sveigjanleika í fjármögnun og styðjum við áætlanir félagsins um vöxt á næstu árum. Við búumst við umtalsverðri tekjuaukningu samhliða markaðssetningu á fjölbreyttara úrvali lyfja, öflugri sókn á alþjóðlega markaði og áframhaldandi þróun á nýjum líftæknilyfjahliðstæðum. Endurfjármögnun lána með gjalddaga á næstu misserum auðveldar okkur að hrinda í framkvæmd áætlunum um vöxt bæði til skemmri og lengri tíma,“ er haft eftir Joel Morales, fjármálastjóra Alvotech.