Fylkismenn, Stjörnumenn, HK-ingar og Skagamenn fögnuði sigri í sínum leikjum en það varð jafntefli í stórleik Vals og Víkings.
Það vantaði ekki flott mörk í leikjunum. HK-ingar tryggðu sér þannig endurkomusigur á Fram með bakfallsspyrnu og Óli Valur Ómarsson skoraði fyrir Stjörnuna eftir að hafa farið einn upp allan völlinn.
Gylfi Þór Sigurðsson jafnaði tvisvar sinnum úr vítaspyrnu fyrir Valsmenn í 2-2 jafntefli á móti Íslandsmeisturum Víkinga á Hlíðarenda. Báðir vítadómararnir voru umdeildir og Víkingar voru mjög ósáttir með þá. Valdimar Þór Ingimundarson skoraði bæði mörk Víkings og opnaði þar með markareikning sinn hjá félaginu. Það vantaði tvö seinni mörkin í fyrri klippu en það hefur nú verið lagfært.
Matthias Præst, Þóroddur Víkingsson og Ómar Björn Stefánsson skoruðu mörk Fylkis í 3-2 sigri á Vestra í Árbænum en Elmar Atli Garðarsson og Jeppe Gertsen skoruðu fyrir Vestra.
Már Ægisson kom Fram yfir í fyrri hálfleik en HK tryggði sér sigur með tveimur mörkum í þeim seinni. Það fyrra var sjálfsmark en það síðara glæsileg bakfallsspyrna hjá Þorsteini Aroni Antonssyni.
Viktor Jónsson og Marko Vardic skoruðu undir lokin i 2-1 sigri Skagamanna á KR en það dugði ekki Vesturbæingum að Eyþór Aron Wöhler minnkaði muninn í uppbótatíma.
Guðmundur Baldvin Nökkvason, Óli Valur Ómarsson, Baldur Logi Guðlaugsson og Emil Atlason skoruðu mörk Stjörnunnar í 4-2 sigri á FH en Björn Daníel Sverrisson skoraði bæði mörk FH-liðsins.
Öll mörkin úr leikjunum má sjá hér fyrir ofan og neðan.