Brasilía komst lítt áleiðis gegn Kosta Ríka í fyrsta leik sínum í D-riðli og hann endaði með markalausu jafntefli.
Brassar höfðu því ýmislegt að sanna í leiknum í Las Vegas í nótt og þeir sýndu hvers þeir eru megnugir.
Brasilía fékk vítaspyrnu eftir hálftíma en Lucas Paquetá skaut framhjá. Fjórum mínútum síðar bætti hann fyrir vítaklúðrið þegar hann lagði upp mark fyrir Vinícius Júnior.
Sávio skoraði annað mark Brassa skömmu fyrir hálfleik og þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik skoraði Vinícius Júnior öðru sinni.
Paragvæ minnkaði muninn í 3-1 með glæsimarki Omars Alderete en á 65. mínútu fékk Brasilía annað víti. Paquetá fór aftur á punktinn og skoraði að þessu sinni, 4-1. Paragvæar kláruðu leikinn manni færri eftir að Andrés Cubas var rekinn af velli á 81. mínútu.
Brasilía er með fjögur stig í 2. sæti D-riðils, tveimur stigum á eftir Kólumbíu sem vann 3-0 sigur á Kosta Ríka í hinum leik riðilsins. Luis Díaz (víti), Davinson Sánchez og Jhon Córdoba skoruðu mörk Kólumbíumanna sem eru komnir áfram í átta liða úrslit.