Innlent

Blóð á veggjum og gólfi og maður fluttur með sjúkra­bíl

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Tómas Arnar Þorláksson skrifa
Hundurinn var af gerðinni Standard Schnauzer.
Hundurinn var af gerðinni Standard Schnauzer. Getty/Vilhelm

Einn var fluttur á sjúkrahús með skurð á hendi eftir að óður hundur réðst á konu og karlmann í stigagangi fjölbýlishúss í Grafarvogi á föstudagskvöld. Konan og karlmaðurinn eru á sjötugsaldri og voru með hundinn í pössun.

Þetta staðfestir Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. 

Hundurinn beit karlmanninn í handlegginn með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á hendi og missti blóð. Blóð var á veggjum, gluggum og gólfi í stigaganginum þegar að lögreglu bar að garði en erfitt var að meta magn blóðmissis og maðurinn því fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. 

Konan leitaði einnig á slysadeild

Hundurinn sem um ræðir er af gerðinni Standard Schnauzer. Konan hlaut einnig skurð á hendi og leitaði á slysadeild í kjölfarið samkvæmt heimildum Vísis. 

Í fréttaskeyti lögreglunnar frá föstudagskvöldi kom fram að tilkynnt hafi verið um óðan hund sem réðst á tvo í Grafarvoginum. 

Mikil læti þegar hundurinn æstist

Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri Dýraþjónustunnar, sagði að hundurinn hafi róast þegar hann var færður í vörslu þjónustunnar. Það líti út fyrir að eitthvað hafi komið upp á og æst hundinn upp. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu urðu mikil læti þegar hundurinn æstist. Atvikið var einnig tilkynnt til Matvælastofnunar (MAST).


Tengdar fréttir

Hunds­bitum fari fjölgandi

Deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg segir málum þar sem hundar bíta fólk og önnur dýr fara fjölgandi. Hann hefur áhyggjur af því hversu margir trassa að skrá hunda hjá sveitarfélögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×