Skoðun

Mengum meira

Heiðar Guðjónsson skrifar

Nú blasir við orkuskortur á Íslandi. Í raun eru öfug orkuskipti að fara fram þar sem rafmagnstengdar fiskiverksmiðjur eru látnar brenna olíu. Þetta gerist á meðan næga græna orku er að finna hér á landi. Í dag búum við skammtanir á heitu vatni og öruggt aðgengi að húshitun hefur snarminnkað á síðustu árum.

Stærsti hluti orku heimsins fer til húsnæðis. Að halda jöfnu hitastigi á húsum útheimtir meira en helming allrar orkunotkunar jarðarinnar, meira en samgöngur og rafmagnsframleiðsla til samans. Ísland er fremst í flokki í þessum efnum en hefur einhverra hluta vegna ekki fengið það metið í samningum um að minnka losun kolefna í andrúmsloftið, heldur tekið á sig skuldbindingar í þeim efnum. Þar hefur hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda og embættismanna beðið algert skipbrot.

En það er líka hægt að horfa til Orkuveitu Reykjavíkur til að reyna skilja hvers vegna Ísland er komið í ógöngur. Þar hafa hagsmunir almennings mátt víkja fyrir gæluverkefnum borgarstjórnar og embættismanna.

Hengilssvæðið er í raun stærsta orkulind Íslands, stærri en Kárahnjúkar í heildarafli. Á Nesjavöllum hefur verið stöðug framleiðsla og í kringum Hveradali hefur verið reynt að auka framleiðslu með mismunandi árangri. Þar við hliðina í Hverahlíð er framtíðarsvæði Reykjavíkur fyrir jarðvarma, sérstaklega til húshitunar en einnig til framleiðslu rafmagns. Af óskiljanlegum ástæðum hefur aukin nýting svæðanna ekki verið efst á blaði hjá Orkuveitu Reykjavíkur heldur eitthvað allt annað.

Carbfix

Húshitun á flestum stöðum heimsins fer fram með bruna jarðefna, oftast kola. Þar sem húshitun er langstærsti notandi orku jarðarinnar er ljóst að hún stendur fyrir mestum útblæstri kolefna. Misheppnuð orkustefna ESB hefur valdið því að nú er verið að opna nýjar kolanámur í Þýskalandi, í fyrsta skipti í meira en hálfa öld, til að mæta orkuþörfinni. Orkuöryggi í Evrópu hefur einnig snarminnkað og verð hafa hækkað en á sama tíma eru álögur lagðar á kolefnisspor stofnana og fyrirtækja.

Carbfix segist vera með lausn á þessum margþætta vanda. Setja evrópskan útblástur í olíuknúin skip sem sigla til Straumsvíkur þar sem menguninni er dælt ofaní borholur í þeirri von um að hún steingerist í jarðlögum Íslands.

Það eru engar holur við Straumsvík og í raun ekki höfn fyrir verkefnið heldur. Þar undir hrauninu rennur hins vegar ein stærsta ferskvatnsá landsins Það þarf að byggja og bora fyrir tugi milljarða með gríðarlegu umhverfisraski, til að Evrópa geti haldið áfram að brenna kolum og þetta þarf að gera á Íslandi því bergið er svo ungt og tekur svo vel við. Og þá er ekki minnst á mengun ferskvatnsins.

Mér finnst fáránleikinn í þessu alger. ESB hefur sett íþyngjandi gjöld og reglur um mengun á Íslandi, eins sjálfbærasta orkunotanda heims, sem við greiðum til þeirra. ESB sendir okkur svo styrki til Carbfix verkefnisins svo að við tökum við menguninni frá þeim og setjum hana í jörð á græna Íslandi.

Ber enginn ábyrgð?

Orkuveitu Reykjavikur hefur brugðist viðskiptavinum sínum. Í stað þess að tryggja þeim húshitun og rafmagn á hagstæðu verði hefur fyrirtækið farið í pólitísk gæluverkefni. Á meðan hefur nauðsynleg orkuöflun ekki átt sér stað, viðhald setið á hakanum með tilheyrandi sprungnum hitavatnsleiðslum, og gríðarlegum fjármunum verið sólundað. Það er ljóst að aukin framleiðsla grænnar orku eru hagsmunir Íslands og hagsmunir heimsins. Hver ákvað að betri leið væri að auka ekki græna orkuframleiðslu hér heldur reyna, með tilheyrandi orkusóun, að reyna að grænka mengandi evrópska orkuframleiðslu með því að flytja mengunina hingað? Hver samþykkti stefnuna „mengum meira“?

Höfundur er hagfræðingur og fjárfestir. 




Skoðun

Sjá meira


×