Fótbolti

Mac Allister hljóp úr klefanum til að bjarga mömmu sinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Móðir argentínska landsliðsmannsins lenti í örtröðinni fyrir utan völlinn.
Móðir argentínska landsliðsmannsins lenti í örtröðinni fyrir utan völlinn. getty / fotojet

Miðalausir aðdáendur gerðu innrás á Hard Rock leikvanginn í nótt fyrir úrslitaleik Copa América. Alexis Mac Allister, landsliðsmaður Argentínu, hljóp úr búningsherberginu til að bjarga móður sinni.

Talið er að um 7.000 miðalausir aðdáendur hafi reynt að brjóta sér leið inn á leikvanginn. Það gerðu þeir með ýmsum leiðum, klifruðu yfir girðingar og veggi, brutu niður öryggishlið og laumuðu sér í gegnum loftræstikerfi.

Um tíma var óvíst hvort leikurinn gæti farið fram, slík var óreiðan og óöryggi meðal skipuleggjenda. Margir aðdáendur sem áttu miða lentu í því að aðgangshliðum var lokað svo öryggisgæsla gæti sinnt því verkefni að bola miðalausum út.

Meðal þeirra sem festist í troðningi fyrir utan eitt aðgangshliðið var móðir Alexis Mac Allister. Hún hringdi í son sinn sem hljóp áhyggjufullur út úr búningsherbergi Argentínu.

„Ég hélt að leikurinn myndi ekki fara fram. Þetta voru ómannúðlegar aðstæður. Við vorum í samskiptum við Alexis allan tímann. Hann gat ekkert gert en beið þangað til vorum komin inn og faðmaði okkur þegar hann sá að við vorum óhult. Svo róuðum við hann niður og sögðum honum að fara og vinna leikinn,“ sagði Silvina við TyC Sports.

Það Argentína gerði að endingu, 1-0 eftir framlengingu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×