Hún var dæmd í lífstíðarfangelsi en við endurupptöku málsins kom í ljós að engin gögn tengdu hana við glæpinn önnur en játning sem hún bar fram undir áhrifum mjög slævandi lyfja á geðsjúkrahúsi.
Hemme er í dag 64 ára gömul og talið að engin kona hafi þurft að sæta jafn langri fangelsisvist í Bandaríkjunum að ósekju.
Greint er frá þessu í frétt Breska ríkisútvarpsins BBC en lögfræðiteymi hennar segist þakklátt því að hún hafi loks fengið að sameinast fjölskyldu sinni. Þau muni halda áfram þeirri vinnu að hreinsa nafn hennar.
Fram kemur í dómsorði dómara sem sneri við sakfellingu Hemme að lögfræðingar hennar, sem starfa fyrir samtökin Innocence Project, hafi fært sönnur á að Hemme væri í reynd saklaus. Byggði sú niðurstaða meðal annars á gögnum sem verjendur hafi ekki vitað af þegar mál hennar var upphaflega rekið fyrir dómstólum.
Litu fram hjá gögnum sem tengdu samstarfsmann við morðið
Í ljós kom að lögregluyfirvöld höfðu horft fram hjá sönnunargögnum sem tengdu lögreglumanninn Michael Holman við málið en hann var síðar dæmdur í fangelsi fyrir annan glæp og lést árið 2015.
Pallbíll Holmans sást til að mynda nærri vettvangi daginn sem morðið átti sér stað og ekki reyndist hægt að staðfesta fjarvistarsönnun hans. Sýna gögn að hann hafi notað kreditkort fórnarlambsins sem hann sagðist hafa séð í skurði og auk þess fundust gulleyrnalokkar á heimili Holmans sem faðir hinnar myrtu taldi vera hennar. Verjendur Hemme voru ekki upplýstir um neitt af þessu á sínum tíma.
Hemme var nokkrum sinnum yfirheyrð af lögreglu undir áhrifum geðrofslyfja og öflugs róandi lyfs eftir að hafa verið lögð inn á geðsjúkrahús. Hún hafði áður stöku sinnum gengist undir geðmeðferð frá því að hún var tólf ára.
Hemme yfirgaf loksins Chillicothe Correctional Center fangelsið í Missouri á föstudag og mun hún búa með systur sinni. Eftir að hún var látin laus átti hún endurfundi með fjölskyldu sinni í nálægum almenningsgarði þar sem hún faðmaði systur sína, dóttur og barnabarn.