Hún er ein af fimm keppendum Íslands á leikunum og verður fánaberi Íslands á setningarhátíðinni annað kvöld.
Guðlaug Edda sýndi mikla þrautseigju í því að tryggja sér þátttökurétt á leikunum og ætlar sér að njóta þess að vera á stærstu íþróttahátíð heims.
Hún varar líka fylgjendur sína á samfélagsmiðlum við því að hún muni sýna mikið frá upplifun sinni af leikunum. Það eru góðar fréttir enda mjög fróðlegt að fá að skyggnast á bak við tjöldin, bæði í Ólympíuþorpinu en einnig á keppnisstöðum leikanna.
Guðlaug Edda frumsýndi líka neglurnar sínar fyrir keppnina á Ólympíuleikunum. Hún hefur látið mála á þær íslenska fánann og Ólympíuhringina eins og sjá má hér fyrir neðan.
Hún og danski æfingafélaginn hennar Alberte Kjær Pedersen dunduðu sér við þetta en Guðlaug Edda fékk að undirbúa sig með danska þríþrautarlandsliðinu á lokasprettinum fyrir leikana.