Íslenski boltinn

Risarnir mætast í kvöld: „Svona leikir skipta al­veg gríðar­­lega miklu máli“

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Breiðabliks og Vals fyrr á tímabilinu á Kópavogsvelli
Frá leik Breiðabliks og Vals fyrr á tímabilinu á Kópavogsvelli Vísir/HAG

Valur tekur á móti Breiða­bliki í upp­gjöri topp­liða Bestu deildar kvenna á N1 vellinum að Hlíðar­enda í kvöld. Liðin eru jöfn að stigum fyrir leik kvöldsins og lítið eftir af hinni hefð­bundnu deildar­keppni. Ástu Eir Árna­dóttur, fyrir­liða Breiða­bliks, lýst vel á viður­eign liðanna í kvöld. Þetta séu leikirnir sem geri allt erfiðið þess virði.

„Mér lýst mjög vel á þetta,“ segir Ásta Eir um stór­leik kvöldsins gegn Val í sam­tali við Vísi. „Maður var ekkert endi­lega að vonast til þess að þetta yrði svona aftur. Þá er ég að tala um stóra leiki á miðju tíma­bili en deildin hefur þróast þannig. Ég er mjög spennt fyrir þessu og býst við hörku leik.

Ásta Eir Árnadóttir er fyrirliði Breiðabliks, kletturinn í vörn liðsins.Vísir/Vilhelm

Frá leik Breiða­bliks og Vals fyrr á tíma­bilinu á Kópa­vogs­velli, leik sem endaði með 2-1 sigri Breiða­bliks, hefur deildin nefni­legast þróast á þá leið að Valur hefur ekki tapað leik síðan þá á meðan að Breiða­blik hefur að­eins tapað einum leik. Þar af leiðandi eru liðin jöfn að stigum á toppi deildarinnar en það eru Blikarnir sem verma topp­sætið fyrir leik kvöldsins á betra marka­hlut­falli.

„Að sjálf­sögðu hefði ég þegið að vera með meira for­skot á toppi deildarinnar komandi inn í leik kvöldsins. Flest liðin fara bara inn í alla leiki sína til þess að vinna. Það hefur gengið á­gæt­lega hjá okkur undan­farið. Sömu­leiðis hjá Val.“

Frá leik Breiðabliks og Vals fyrr á tímabilinu. Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Vals hér umkringd leikmönnum BreiðabliksVísir/HAG

Ykkur hefur gengið vel gegn Val upp á síð­kastið. Unnið síðustu þrjár viður­eignir gegn þeim í Bestu deildinni. Hvað þarf að gerast til þess að þið bætið fjórða leiknum við í kvöld?

„Við þurfum að mæta til­búnar. Ég hugsa að þetta verði leikur sem ræðst á því hvort liðið sé meira til­búið. Upp á síð­kastið höfum við verið seinar í gang í okkar leikjum. Það er ekki í boði í svona leik eins og í kvöld. Svo þurfum við að fylgja okkar plani. Gera hlutina eins og við erum bestar í. Það er stóra málið.“

Risarnir í ís­lenskri kvennaknatt­spyrnu mætast í kvöld. Þetta eru þau fé­lög sem eiga flesta Ís­lands­meistara­titlana í kvenna­flokki. Breiða­blik með á­tján titla, Valur með fjór­tán.

Og út frá töl­fræði deildarinnar á yfir­standandi tíma­bili mætti stilla viður­eigninni upp sem ein­vígi besta sóknar­liðsins (Val) á móti besta varnar­liðinu (Breiða­blik).

Jasmín Erla Ingadóttir, sóknarmaður Vals, er leikmaður sem Blikar munu þurfa að hafa góðar gætur á. Jasmín er markahæsti leikmaður Vals með sjö mörk á tímabilinu og kemur með sjálfstraustið í botni eftir tvennu í síðustu umferð gegn Tindastól.Vísir/Anton Brink

Svona út frá þeirri stað­reynd að þarna mætast annars vegar liðið sem hefur skorað felst mörk deildarinnar, Valur, og liðið sem hefur fengið á sig fæst mörk, Breiða­blik. Má ekki búast við mikilli skák í kvöld?

„Jú ætli það ekki. Þegar að þú segir þetta svona. Við munum hið minnsta reyna halda á­fram að vera svona þéttar til baka líkt og raunin hefur verið hingað til. Láta þær finna fyrir því að það sé erfitt að brjóta okkur niður. En að sama skapi þurfum við að klára okkar færi fram á við. Vera meira yfir­vegaðar fyrir framan markið en við höfum verið undan­farið. Við erum allar góðar í fót­bolta. Þetta verður mjög skemmti­legur leikur.“

Lið Vals og Breiða­bliks hafa verið í sér­flokki í Bestu deildinni hingað til. Er bilið niður í næstu lið fyrir neðan þau, sem stendur í ellefu stigum, til marks um það. Sigur­liðið í kvöld býr til bil upp á þrjú stig milli sín og tap­liðsins þegar að þrjár um­ferðir eru eftir af hinni hefð­bundnu deildar­keppni.

Til­finningin þegar að þú vaknaðir í morgun. Er hún öðru­vísi en fyrir aðra leik­daga upp á síð­kastið?

„Nei í rauninni ekki. Ég er alveg frekar ró­leg. Þetta er bara fót­bolti og þýðir ekkert að fara of­hugsa þetta eða eitt­hvað svo­leiðis. Það er í rauninni ekkert öðru­vísi hjá mér. Ég er bara aðal­lega spennt. Ég vaknaði hins vegar við rokið í morgun og hugsaði þá með mér „okey við erum að fara endur­taka leikinn frá því síðast“ en fyrri leikur okkar við Val á tíma­bilinu var leikinn í gulri veður­við­vörun. Það er bara stemning í því. Vonandi að fólk leggi það á sig að mæta á völlinn.“

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leik liðanna fyrr á tímabilinu:

En þegar að maður tekur allt með í reikninginn. Innra og ytra um­hverfi. Eru þetta þá ekki leikirnir sem maður vill spila sem fót­bolta­leik­maður?

„Jú ekki spurning. Þetta er það sem maður er að æfa allan veturinn fyrir. Svona leikir sem skipta alveg gríðar­lega miklu máli. Þá er líka bara alltaf gaman að spila við Val. Hörku leikir þar sem að bæði lið vilja svo mikið standa uppi sem sigur­vegari. Það er alltaf gaman að spila þannig leiki. Ég er mjög spennt fyrir kvöldinu.“

Leikur Vals og Breiða­bliks á N1 vellinum að Hlíðar­enda hefst klukkan sex í kvöld og verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport. Upp­hitun fyrir þennan stór­leik hefst korteri fyrr, klukkan 17:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×