Fótbolti

Spán­verjar snéru taflinu við og leika til úr­slita

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fermin Lopez skoraði og lagði upp í dag.
Fermin Lopez skoraði og lagði upp í dag. Eurasia Sport Images/Getty Images

Spánverjar eru komnir í úrslit Ólympíuleikanna í fótbolta eftir 2-1 endurkomusigur gegn Marokkó í dag.

Það voru Marokkómenn sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Soufiane Rahimi skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum á 37. mínútu eftir að brotið hafði verið á Amir Richardson innan vítateigs.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Spænska liðið mætti þó ákveðið til leiks í síðari hálfleik og uppskar jöfnunarmark á 66. mínútu þegar Fermin Lopez kom boltanum í netið.

Það stefndi því lengi vel í það að grípa þyrfti til framlengingar, en Lopez var aftur á ferðinni fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma þegar hann fann Juanlu Sanchez inni á vítateig og Sanchez kláraði vel framhjá Munir í marokkóska markinu.

Niðurstaðan því 2-1 sigur Spánverja sem eru á leið í úrslit, en Marokkó þarf að sætta sig við að leika um brons. Síðar í kvöld kemur svo í ljós hvort það verði Frakkar eða Egyptar sem fylgja Spánverjum í úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×