Körfubolti

Frakkar í úr­slit eftir spennu­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ungstirnið Victor Wembanyama fagnar sigrinum.
Ungstirnið Victor Wembanyama fagnar sigrinum. Vísir/Getty

Frakkland er komið í úrslitaleikinn í körfubolta á Ólympíuleikunum í París eftir sigur á Þjóðverjum í spennuleik. Í kvöld ræðst hvort það verða Bandaríkjamenn eða Serbar sem mæta Frökkum í úrslitum.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi en Þjóðverjar byrjuðu betur og voru 25-18 yfir að loknum fyrsta leikhluta. Frakkar svöruðu þó og voru búnir að jafna metin fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 33-33.

Í stöðunni 48-49 fyrir Þjóðaverja í þriðja leikhlutanum náðu Frakkar síðan góðu áhlaupi. Þeir komust í 56-50 undir lok þriðja leikhlutans og héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt í lokafjórðungnum.

Frakkar komust mest í 66-53 forystu og virtust vera að sigla beint í úrslitin. Þjóðverjar voru þó ekki á þeim buxunum. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt og þegar 39 sekúndur voru eftir skoraði Franz Wagner þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 70-68.

Frakkar voru þó ískaldir á lokasekúndunum. Eftir að bæði lið höfðu sett sitthvort vítaskotið niður tókst Isaia Cordinier að skora úr tveimur vítum og koma muninum í tveggja körfu leik með aðeins sjö sekúndur á klukkunni.

Það var of mikið fyrir Þjóðverja og Frakkar fögnuðu sigri og sæti í úrslitum við mikinn fögnuð heimamanna í höllinni.

Yabusele Guerschon var stigahæstur Frakka í dag með 17 stig auk þess að taka 7 fráköst. Stórstjarnan Victor Wembanyama skoraði 11 stig en hann hitti illa í leiknum. Seinni undanúrslitaleikurinn fer fram í kvöld þegar Bandaríkjamenn og Serbar mætast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×