Þetta kemur fram í svari borgarinnar til fréttastofu en spurt var hversu margir leik- og grunnskólar borgarinnar væru óstarfhæfir og hvar nemendur verði til húsa ef ekki er hægt að vera í venjulegu húsnæði skólans. Þeir leikskólar sem um ræðir eru Hálsaskógur, Grandaborg, Garðaborg, Árborg, Hlíð, Laugasól, Vesturborg, Brákarborg og Sunnuás.
Í leikskólanum Hálsaskógi er starfsemi skert en þar eru framkvæmdir í öðru húsi skólans. Á Grandaborg er starfsemi einnig skert en áætlað að loka leikskólanum frá september og til maí á næsta ári. Á Garðaborg er einnig skert starfsemi.
„Þau börn sem eftir eru í leikskólanum hafa verið í gömlu Brákarborg við Brákarsund en munu brátt flytjast í Kvistaborg og aðra leikskóla í hverfi 108 þar sem leikskólinn lokar. Húsnæðið verður hluti af leikskólanum Jörfa þegar að framkvæmdum lýkur,“ segir í svari borgarinnar og að áætluð verklok séu í mars 2025.

Starfsemi leikskólans Árborgar er í húsnæði Selásskóla á meðan framkvæmdir standa yfir og börn sem eru í leikskólanum Hlíð eru í öðru húsi skólans á meðan hitt er lagað. Í Laugasól er annað hús skólans óstarfhæft og hafa börnin sem þar eiga að dvelja verið í húsnæði í Safamýri frá því í maí á þessu ári.
Á Vesturborg er skert starfsemi vegna þess að eldra hús leikskólans þurfti að taka úr notkun. Starfsemi Brákarborgar hefur svo verið að hluta flutt í Ármúla en elstu börn leikskólans eru í húsnæði frístundaheimilisins Glaðheima. Þegar húsnæði gömlu Brákarborgar við Brákarsund losnar í september verður hluti starfseminnar þar.
Starfsemi leikskólans Sunnuás er nú í Ævintýraborg við lóð leikskólans næst Laugarnesvegi.
Hólabrekkuskóli er eini skólinn þar sem starfsemi er skert en 7.-10. bekkur er í Korpuskóla vegna framkvæmda á húsnæði skólans.
Enginn óstarfhæfur skóli í öðrum sveitarfélögum
Í öðrum sveitarfélögum eru framkvæmdir við einhverja skóla en enginn þeirra óstarfhæfur. Sem dæmi eru framkvæmdir í Garðaskóla í Garðabæ en nemendur í skólanum auk þess sem færanlegar kennslustofur eru við skólann.
Allir leik- og grunnskólar í Mosfellsbæ verða starfandi í haust samkvæmt upplýsingum frá bænum. Í einum leikskóla verður þó færri börnum tekið inn en upphaflega var gert ráð fyrir vegna fyrirhugaðra framkvæmda á húsnæðinu. Þeim börnum sem ekki komust að þar hefur verið komið fyrir í öðrum leikskólum samkvæmt svörum frá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ.

Allir leik- og grunnskólar í Hafnarfirði eru starfhæfir fyrir nýjan skólavetur. Á Seltjarnarnesi er leikskólastarf hafið og grunnskólar verða, samkvæmt svörum frá bænum, starfhæfir frá skólabyrjun, þrátt fyrir að framkvæmdir verði þar í gangi jafnhliða skólastarfi.
Í Kópavogi eru allir leik- og grunnskólar starfhæfir við upphaf skólaárs. Fram kemur í svari frá bæjaryfirvöldum að unnið sé að endurbótum í húsnæði tveggjaleikskóla í Kópavogi vegna myglu sem greindist þar síðastliðinn vetur. Leikskólinn Álfaheiði flutti hluta af starfsemi sinni, tvær deildir, í húsnæði Skátafélagsins Kópa mánaðamótin apríl og maí. Í svari bæjaryfirvalda segir að hhúsnæði Skátanna sé stutt frá leikskólanum og að leikskólastarfið hafi gengið vel þar.
Þá flutti leikskólinn Fagrabrekka starfsemi tveggja deilda í húsnæði við Furugrund 3 í byrjun febrúar. Í svari bæjarins segir að húsnæðið sé í sama hverfi og leikskólinn og starfsfólk og börn njóti þess að annar leikskóli er þar við hliðina.
Fréttin hefur verið uppfærð með svörum frá Kópavogsbæ. Uppfærð klukkan 18:04 þann 18.8.2024.