Enski boltinn

Ful­ham tekur Berge fram yfir Mc­Tominay

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á leið til Fulham.
Á leið til Fulham. Dave Howarth/Getty Images

Enska knattspyrnuliðinu Fulham var mikið í mun að sækja hávaxinn miðjumann í sumar og hefur nú loks fest kaup á einum slíkum. Norðmaðurinn Sander Gard Bolin Berge er í þann mund að ganga í raðir liðsins frá B-deildarliði Burnley.

Fulham hefur látið lítið fyrir sér fara á leikmannamarkaðnum í sumar en þarf á styrkingu að halda. Liðið hefur verið orðað við Scott McTomiany, miðjumann Manchester United sem er 1.93 metri á hæð.

Man United taldi tilboð Fulham ekki nægilega gott og var ekki tilbúið að selja þennan skoska landsliðsmann nema hann persónulega myndi gefa til kynna að hann vildi yfirgefa félagið.

Nú er allavega ljóst að Fulham mun ekki bjóða í leikmanninn á nýjan leik þar sem liðið frá Lundúnum er við það að festa kaup á Norðmanninum Berge.

Fulham er sagt borga 25 milljónir punda eða tæplega fjóra og hálfan milljarð íslenskra króna fyrir þennan 26 ára gamla miðjumann. Hann er 1.95 metri á hæð og ljóst að Marco Silva, þjálfari Fulham, telur lið sitt vanta ákveðna hæð á miðsvæðið.

Berge er að semja við sitt annað félag á aðeins ári en Burnley festi kaup á honum eftir að Sheffield United féll vorið 2023. Burnley féll svo síðasta vor og vonast Fulham til að Berge nái ekki hinni svokallaðri fall-þrennu, það er að falla þrjú ár í röð með þremur mismunandi liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×