Á blaðamannafundi þar sem Kennedy kynnti ákvörðun sína í dag sagðist hann ekki geta beðið fólk um að kjósa sig þar sem hann ætti ekki raunhæfa möguleika á að ná kjöri. Hann yrði áfram á kjörseðlinum í sumum ríkjum en draga sig til baka í tíu ríkjum þar sem framboð hans gæti haft áhrif á úrslit kosninganna.
Sakaði Kennedy demókrata um að há stríð fyrir dómstólum gegn sér og Trump. Demókratar væru ekki lengur talsmenn stjórnarskrárinnar og hefðu vikið frá grunngildum flokksins frá æsku hans sjálfs. Kennedy ætlaði upphaflega að bjóða sig fram í forvali demókrata en skráði sig síðan sem óháður frambjóðandi.
NBC-sjónvarpsstöðin segir að Kennedy ætli að koma fram á kosningafundi með Trump í Phoenix í Arizona dag. Blaðamannafundur Kennedy fór fram þar.
Bandarískir fjölmiðlar hafa sagt frá tilraunum Kennedy til þess að fá bæði Trump og Harris til þess að lofa sér áhrifastöðu í ríkisstjórn gegn því að lýsa yfir stuðningi við annað hvort þeirra. Ekki er ljóst hvort að Kennedy hafi fengið slíkt loforð frá Trump.
Vísbendingar hafa verið í skoðanakönnunum um að Kennedy gæti tekið atkvæði af Trump í lykilríkjum sem eru líkleg til að ráða úrslitum í forsetakosningunum. Ákvörðun Kennedy nú gæti því hjálpað Trump í hörðum slag við Kamölu Harris, forsetaefni demókrata.
Sagður svíkja gildi Kennedy-fjölskyldunnar
Mikill vandræðagangur hefur einkennt framboð Kennedy. Hann hefur átt erfitt með að koma nafni sínu á kjörseðilinn í öllum ríkjum, meðal annars vegna ásakana um að hann hafi skilað inn fölsuðum gögnum. Þá hefur hvert furðumálið rekið annað. Hann greindi sjálfur frá því að ormar hefðu fundist í heila hans og viðurkenndi nýlega að hafa skilið eftir bjarnarhúnshræ í Miðgarði í New York fyrir tíu árum.
Kennedy er sonur Roberts F. Kennedy, bróður Johns F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þeir voru báðir ráðnir af dögum. Fjölskylda hans brást við tíðindunum í dag með því að saka hann um að svíkja gildi föður síns og stórfjölskyldunnar.
„Þetta er dapurlegur endir á dapurlegri sögu,“ sagði í yfirlýsingunni sem fimm af systkinum Kennedy skrifuðu undir.
Fréttin hefur verið uppfærð.