Fótbolti

Byrjuðu þetta tíma­bil eins og þeir enduðu það síðasta: Sigur­mark á 101. mínútu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Florian Wirtz skorar sigurmark Bayer Leverkusen gegn Borussia Mönchengladbach.
Florian Wirtz skorar sigurmark Bayer Leverkusen gegn Borussia Mönchengladbach. getty/Christof Koepsel

Segja má að Þýskalandsmeistarar Bayer Leverkusen hafi tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið á síðasta tímabili í upphafsleik þýsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Leverkusen sótti þá Borussia Mönchengladbach heim og vann 2-3 sigur. Florian Wirtz skoraði sigurmarkið þegar ellefu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Leverkusen skoraði ótrúlega mörg mörk undir lok leikja á síðasta tímabili og leikmenn liðsins virðast engu hafa gleymt í þeim efnum.

Framan af benti þó fátt til þess að sigur Leverkusen yrði tæpur því þýsku meistararnir voru 0-2 yfir í hálfleik. Á 11. mínútu skoraði Granit Xhaka stórglæsilegt mark með skoti fyrir utan vítateig og sjö mínútum fyrir hálfleik jók Wirtz muninn í 0-2.

Gladbach gafst þó ekki upp. Nico Elvedi minnkaði muninn í 1-2 á 59. mínútu og fimm mínútum fyrir leikslok jafnaði Tim Kleindienst metin, 2-2.

Tíu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og þegar allt virtist stefna í jafntefli fékk Leverkusen vítaspyrnu. Wirtz fór á punktinn en Jonas Omlin varði spyrnu hans. Boltinn hrökk hins vegar aftur til Wirtz sem skoraði og tryggði gestunum stigin þrjú. Lokatölur 2-3, Leverkusen í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×